efinn

Þrenna vikunnar: Um stjórnun á bringusundi, spliffaðar pælingar og óttalausan október
Þrenna vikunnar: Um stjórnun á bringusundi, spliffaðar pælingar og óttalausan október 150 150 Freyr

1 – Góður stjórnandi syndir alltaf bringusund!

Góður stjórnandi syndir ekki skriðsund, með höfuðið hálft ofaní vatni og rótast áfram. Nei, góður stjórnandi syndir bringusund, með gamla laginu! Höfuð upp úr vatni, ýtir með stórum handartökum áskorunum, áhyggjum og vandamálum kröftuglega frá, alltaf með yfirsýn, sér alltaf til lands!

ps. Innleggið í þessum örpistli heyrði ég í gær haft eftir reynslumiklum Rangæingi, stjórnanda úr byggingageiranum, sem svaraði svo, poll rólegur, þegar einhver hafði áhyggjur af því að hann, með alla þessa ábyrgð í risavöxnu verki, væri svo yfirvegaður.

2 – Spliffuð mælingar pæling

Nú er vika í nýjan ársfjórðung. Þú setur vonandi á blað háleit markmið fyrir þig og þitt teymi/fyrirtæki/stofnun. Markmiðið mjög líklega útkomu, eða niðurstöðumarkmið. Segjum t.d. að selja sjöhundruð pakka af spliffi, donki og gengjum. Framganginn getur þú auðveldlega mælt í sölutölum mánaðar. Það er fínt. En hvað er það sem ræður mestu um hve marga pakka þú selur? Gefur besta vísbendingu um árangur ársfjórðungins? Er það fjöldi kynninga í verslunum eða fjöldi samtala við landshlutafélög spliffara? Fjöldi matarboða með helstu donk og gengju gengjunum?

Þá er spurning um þennan ársfjórðung sem lúrir hinumegin við helgina. Viltu setja smá púður í pælingar um „vísbendingarmarmið“, frekar en útkomu? Mæla vikulega? Pældu allavegana í því!

3 – Óttalaus október

Ef það er eitthvað sem við getum gengið að sem vísu í komandi mánuði þá er það efinn. Við munum efast um eigin ágæti, fá fiðring í maga, hika, sleppum því að stíga skrefið. Eða hvað? Hvað ef við snúum nú á efann? Höldum óttalausan október? Um leið og kitlið kemur, kýlum á það djarfar en okkur grunaði að væri hægt? Stökkvum upp þrjú þrep, en ekki eitt? Skrifum í blöðin en ekki á miða? Biðjum um fund með okkar flottustu fyrirmynd frekar en muldra í barminn? Látum kitlið þýða, nú kýli ég á það!? Fyrir efann í orðabók október standi, ég er frábær! Já ég þori get og vil!

Þrenna vikunnar: Tannbursta trixið, símamörkin og framtíðin bjarta
Þrenna vikunnar: Tannbursta trixið, símamörkin og framtíðin bjarta 150 150 Freyr

1 – Tannbursta trixið
Hefurðu komið inn í nýtísku fjós? Séð kýrnar „plataðar“ inn í básinn með mélkögglum? Þannig halda þær sinni rútínu, fara sinn hring í gegnum daginn. Við erum ekki mikið flóknari, a.m.k. ekki ég! Mánuðum saman hef ég reynt að festa inn mína eftirfarandi einföldu þriggja spurninga kvöld-rútínu með misjöfnum árangri:
1. Er ég örugglega búinn að gera allt sem ég varð að gera í dag? 2. Hvernig lítur morgundagurinn út? Aðalatriðið? 3. Er æfing morgundagsins undirbúin?
Nema hvað, eftir alla mína innri baráttu hef ég loks fundið ráðið! Blað bíður mín innan á tannbursta-skápnum. Ég leyfi mér að haka við þegar kvöld-rútínan er afgreidd, ekki fyrr! Á básnum sem ég heimsæki á hverju kvöldi. Nú held ég glaður mínum hring í gegnum daginn, muuuu betri maður en áður!

2 – Símamörkin
Ferðu í jarðaför með kveikt á farsíma og öllum hringingum og tilkynningum? Leikhús? Atvinnuviðtal?  Einkastund með uppáhaldinu? Sölufund? Vinnufund með samstarfsmönnum? Mikilvæga vinnulotu með sjálfum þér? Í sumarfríið? Yfir allan daginn í vinnunni? Að spila með börnum, vinum? Heima utan vinnu?
Hvar dregur þú mörkin? Af hverju? Bókar þú tíma án síma? Ekki láta truflunina vera tilviljun! Þitt er valið!

3 – Bjarta framtíð
Mannskepnan er án efa færust af skepnum jarðar í að ímynda sér framtíðina. Þessi geta leggur grunninn að margvíslegum efasemdum, kvíða og jafnvel hræðslu við að taka af skarið. Hræðslu við að gera nýja hluti, koma á nýjum venjum, breyta rútínum. Sem er mögulega það sem við ættum að hræðast mest! Að taka ekki af skarið, bíða einn dag enn með að byggja upp nýjar venjur og rútínur, leggja á ný mið, undirbúa okkar björtu framtíð!

Ertu rassálfur?
Ertu rassálfur? 150 150 Freyr

Ég vildi bara láta þig vita að ég hef hugsað mikið til þín undanfarið. Við pistlaskrifin hef ég átt það til að vera svolítið sjálfhverfur. Ég hef verið að hugsa um mínar eigin áskoranir og efasemdir. En síðan tók ég eftir að þú varst ekki heldur alveg viss. Ég vildi bara segja þér að þetta mun takast. Þetta mun fara vel. Ekki efast! Ekkert gerist samt af sjálfu sér. Þetta mun verða vinna. Eitt skref í einu, einn dag í einu. En vertu viss, þú ert manneskja sem gerir og getur. Þú hefur sýnt það áður og þú munt sýna það aftur!

Auðvitað er eðlilegt að þú fáir fiðring í magann og efist, það gera allir og það er eðlilegt. En næst þegar þú eða aðrir sá hjá þér efasemdarfræi, taktu því fagnandi, veittu því athygli. Ég get jafnvel gefið þér ráð. Fuglar borða fræ. Taktu fræið, horfðu vandlega á það í lófanum, þegar þú ert til, blástu því úr lófanum, sjáðu það lenda á jörðinni, horfðu á það og sjáðu svo fuglana koma að kroppa, pikka upp fræið og fljúga með það í burtu. Farið! Nú getur þú haldið áfram.

Hinn japanski Taiichi Ohno talaði fyrir djúpri rótargreiningu ef eitthvað fór úrskeiðis við framleiðsluferli Toyota. Fimm sinnum af hverju. Hann hefði líklega fallið vel inn í hóp rassálfa Ronju ræningjadóttur. Það er hollt og gott að vera rassálfur, ekki bara þegar eitthvað fer úrskeiðis, heldur líka til að finna út af hverju og til hvers að þú ættir að gera þetta? Ef þú spyrð þig áfram við hvert svar, nokkrum sinnum af hverju er líklegt að þú komist nær kjarnanum. Er markmiðið algjörlega ljóst? Af hverju ekki? Vittu til, þegar vissan er komin, raun ástæðan, raun löngunin, þá er eftirleikurinn miklu léttari. 

Með alla þína vissu, efasemdarfræin upp étin, hvernig skipuleggurðu þá vikuna? Hve margar mínútur þarftu á dag í hvern þátt? Geturðu sett upp ramma fyrirfram þar sem þú ákveður hvernig þú vilt að vikan líti út? Hvaða athygli og tíma ætlarðu að gefa hverjum þætti? Hollt. Enn hollara er samt að gera upp vikuna, ekki stundum, heldur nákvæmlega alltaf, eftir hverja viku að skoða hvernig fór. Hélstu þér innan rammans? Nýttirðu vikuna í það sem þú ætlaðir þér? Ef ekki, þá er gott að gerast rassálfur, komast að rót vandans, breyta því sem þarf að bæta til að tryggja að næsta vika verði betri.

Takk fyrir mig og gangi þér innilega vel. Ég hef mikla trú á þér, enda full ástæða til!


Innblástur

Í vikunni hlustaði ég á bókina Indistractable, sjá hér á Audible, hér á pappír.

Ég get þakkað Samuel Thomas Davis fyrir að benda mér á bókina, hann sendi mér þessa samantekt

Við efumst
Við efumst 150 150 Freyr

Ég skrifa pistlana mína einn að morgni. Skrifa einn. Birti einn. Birti og fæ viðbrögð um leið. Oftast jákvæð, jafnvel hjartnæm, hvetjandi. Þumall upp, hjarta eða bros. Jákvæð samskipti og samfélag. Teljarinn tikkar. Einn lestur enn. Nútíminn er nærandi. Endurgjöf á augnabliki. Ég er þakklátur.

En efinn er alltaf nálægur. Það er víða spegill. Nútíminn getur líka verið nagandi. Teljarar hinna sýna hærri tölur. Aðrir skrifa í öflugri miðla. Hjálpa fleirum, hvetja fleiri til dáða. Tungumálið takmarkar. Ég efast um eigin ágæti og ágæti pistlanna. Ég efast um tilganginn. Ég efast áður, á meðan og á eftir. Það er enginn skortur á pistlum. Í heiminum er offramboð orða.

Oft er ég bara lítill kall úr Landeyjum sem veit að aðrir eru færari, flottari og betri. En lítill kall úr Landeyjum veit líka að bæði betri bændur og verri þurfa að fara í fjósið, bæði kvölds og morgna. Hvernig sem viðrar, hvað sem á dynur, hver sem löngunin er. Oft þarf að taka sig taki.

Mér er að lærast að efinn er eðlilegur. Að efast er að vera til. Efinn hamast í okkur að liggja lengur og sitja hjá. Hann vill að við sleppum því að taka áskoruninni, stíga á stokk. Það er léttara að leyfa öðrum að taka ábyrgð, taka af skarið, að bíða betra veðurs.

Mig langar að geta tekið kitli efans sem hvatningu. Er efinn kannski að hvetja mig og þig til að hrópa hátt framan í heiminn? Láta vaða? Hætta að horfa til baka en horfa heldur fram? Hætta að lepja upp læk en gera erfiða áskorun að vana eða kæk?

Norpandi á náttbuxum nudda ég saman þessum pistli. Efast án afláts. Leyfi efanum að kitla mig og hvetja. Birti brátt. Ég veit að aðrir skrifa betri pistla, tilgangsmeiri, gagnlegri. Teljari hinna snýst hraðar. Það gerir ekkert til. Ég er bara ég. Þú ert bara þú. Við efumst.


Tilvísun

Orginal – Guðmundur Jónsson og Friðrik G Sturluson