einkunn

Þrenna vikunnar: Letidýrið, venjuvegurinn og einkunn dagsins
Þrenna vikunnar: Letidýrið, venjuvegurinn og einkunn dagsins 150 150 Freyr

Letidýrið

Ertu nokkuð letidýr? Líklega ekki, fyrst þú gast lesið þessa setningu. Letidýr eru nefnilega ekkert svo spræk í lestri, a.m.k. ekki á íslensku. Þú þarft samt að vara þig, því heilinn þinn er á mörkunum. Gráa greyið er alltaf til í að spara orku, finna léttustu leiðina. Heilinn elskar að vera á sjálfsstýringu, að afgreiða, bregast við áreiti, lesa léttmeti, fletta bara áfram og hann reynir að beina þér í þetta létta. Hann vill síður það sem kostar orku og fyrirhöfn að komast í, djúpu vinnuna, pælingarnar, skipulagið, að takast á við erfiðu málin.

Fyrirhöfn og skipulag sagði ég, það er samt ekki svo flókið, eitt stykki dagatal, með dagskrá dagsins eða vikunnar sem þú stillir af fyrirfram og tekur frá stundir þegar líklegast er að þú sért í stuði fyrir djúpu vinnuna kemur þér ansi langt. Í djúpu vinnunni er ekkert áreiti, engar áminningar, engin truflun, bara þú og gráa letidýrið að knúsast í kósýheitum.

Njótið stundarinnar! Munið bara að læsa að ykkur!

Venjuvegurinn

Fimmtudagur, lok viku og lok mánaðar framundan. Góð stund til að fyrirgefa sjálfum sér fyrir að hafa keyrt út af venjuveginum, þrátt fyrir góðan ásetning og að minnsta kosti aðra hönd á stýri. Tími til að brosa út í annað yfir vitleysunni og fagna því hve vegaxlirnar eru nú mjúkar. Ekki annað að gera en að renna aftur upp á veginn í fyrsta gír, rúlla af öryggi að næstu stiku, og svo næstu…

Einkunn dagsins

Hvað þarf til að þinn dagur sé upp á tíu? Jafnvel bara 8+? Er eitthvað eitt sem þú getur gert í dag, sem eykur líkurnar á að þú getir gefið morgundeginum hærri einkunn? Bara eitt!

Gagnabóndinn
Gagnabóndinn 150 150 Freyr

Gleðilegan bóndadag!

Í mjólkurframleiðslu hefur, líkt og á mörgum öðrum sviðum, orðið bylting síðustu áratugina. Nútímabóndinn er ekki bara kúabóndi, hann er líka gagnabóndi. Góð mjólkurnyt er minnst tilviljun eða heppni. Nytin byggir frekar á natni bóndans við að sinna sínu, rýna í gögn, stilla breytur. Hiti, lýsing, fóður, efnainnihald, tími og tíðni gjafa og mjalta er nú eitthvað sem (gagna)bóndinn horfir til í viðleitni sinni við að fjölga góðu dögunum í fjósinu, auka nytina. Bóndinn þarf að horfa á heildarmyndina, tryggja að kúnum líði vel, þær fái sitt, til að þær skili sínu.

En hvað með bóndann sjálfan, er hann nokkuð að gleyma sjálfum sér? Þess þarf ekki. Með snjöllum græjum getur hann nú mælt og skráð magn og gæði svefns, næringar og hreyfingar. Hann getur auðveldlega mælt tímann sem hann eyðir í áætlanagerð og endurskipulagningu, fjármál vs. fréttir, viðhald á húsum vs. viðhald á eigin skrokki og eflingu andans.

Með einfaldri daglegri skráningu og einkunnagjöf daganna, á skala frá 1-10, getur bóndinn síðan greint hvað það er í raun sem tryggir gæði hans eigin daga. Hvort heldur hann missir allt í skrúfuna, eða allt er upp á tíu, þá má rýna í orsökina? Er það í raun svefninn, hreyfingin, morgunrútínan eða kannski samskiptin í sveitinni eða samfélagsmiðlum, sem er lykillinn að góðum degi? Með gögn við hendina þarf ekki lengur að giska. Góðir dagar gagnabóndans eru sjaldnast heppni, ekki frekar en nytin í fjósinu.


Pistill birtur í tilefni bóndadagsins 2021. Frumútgáfa af þessum pistli, þá ekki sniðin að bóndanum sjálfum, birtist fyrst sem Þrenna vikunnar.