ferlar

Ferlasport – Pirringur – Reynslan kennir
Ferlasport – Pirringur – Reynslan kennir 150 150 Freyr

Ferlasport

Hver er aðferðafræðin? Ferillinn? Það er hollt að muna að það gefur margfalt meira að snikka til ferilinn heldur en tilvikið, útkomuna. Eða hvað gerir glassúr fyrir gallsúra köku?

Hættum að ergja okkur á einni ónýtri „köku“. Bætum ferilinn og allt sem á eftir kemur verður aðeins betra.

Pirringur

Hvað eiga pirrandi hljóð, pirrandi dagskrá og pirrandi nágranni sameiginlegt? Er það kannski bara fyrra orðið í dúettinum?

Getur verið að þetta orð, þessi pirringur, eigi heima hjá okkur sjálfum? Með aðeins meira umburðarlyndi standi bara eftir hljóð, dagskrá og nágranni sem gefa okkur ekki tilefni til annars en að brosa, þó ekki væri nema út í annað?

Getur verið að hugarróin komi ekki að utan, heldur sé okkar að finna hið innra?

Reynslan kennir

Segðu mér og ég seinna gleymi.

Kenndu mér og ég kann að muna.

Lof mér að reyna og í minni allt geymi.

Íslensk útgáfa FÓ á speki forna kínverska heimspekingsins Xunzi

Þrenna vikunnar: Sóunar bingóið – Spurningar og svör – Kassarnir mínir
Þrenna vikunnar: Sóunar bingóið – Spurningar og svör – Kassarnir mínir 150 150 Freyr

1-Sóunar bingóið

Ein mesta gleðin í ferlagreiningum, er að finna “fullkomna” sóun. Endurtekin verk sem eru óþörf, án þess að nokkur hafi áttað sig á því.

Prófaðu að rýna í verkefnalistana og ferlana og spyrja þig, eða þitt fólk: Af hverju? Ítrekað, eins og forvitið barn varðandi hvern lið. Ef lokasvarið við spurninga-rununni er “bara”, eða “við höfum alltaf gert þetta svona”, þá gæti verið komið bingó!

2-Spurningar og svör

Ég titla mig ráðgjafa. Réttnefni? Ekki endilega. Í mínum huga er nefnilega engin spurning að krefjandi spurningar og góðar þagnir færa viðmælandanum fleiri svör en að ryðja frá sér ráðum.

3-Kassarnir mínir

Ég hef mikla trú á “kössum” og lotum til að afkasta, föstum venjum og nota sjálfur nokkra vel valda “kassa” til að koma frá mér Þrennu vikunnar:

  1. Geymslu-kassinn minn er í Notion, þangað hendi ég inn hugmyndum, hvenær sem þær koma til mín yfir vikuna. Ágætis geymsla, í dag með 300 punktum sem bíða síns tíma 😅
  2. Klukkan 7 á þriðjudagsmorgni, að lokinni léttri æfingu, stíg ég inn í kassa sem bíður mín á dagatalinu, legg hendur á lyklaborðið og byrja að skrifa. Skrifa þar til ég er kominn með (helst) þrjár hugmyndir, en þó aldrei lengur en til klukkan 9, með einni pásu í kringum 8 til að kveðja fólkið mitt.
  3. Klukkan 9:00 á fimmtudagsmorgni loka ég síðasta kassanum þegar ég ýti á takkann og sendi frá mér Þrennu vikunnar. Klukkutímana á undan fínisera ég og bý til birtingar, alltaf í næði, alltaf eftir einhverja hreyfingu.

Með kassana á sínum stað í dagatalinu, tryggi ég að hausinn hlaupi ekki útundan sér. Hafi sinn ramma, svo þú fáir örugglega Þrennu vikunnar. Ætli megi ekki kalla mig ferkantaðan? Eða hálfgerðan pappakassa? 🙂