hreyfing

Þrenna vikunnar: Þá fyrst – Samsíða – Allt í kerfi
Þrenna vikunnar: Þá fyrst – Samsíða – Allt í kerfi 150 150 Freyr

Þá fyrst

Þá fyrst þegar ég veit hvað viðsemjandinn vill, betur en hún sjálf, þá fyrst þegar ég skil hana og hennar ástæður betur en mínar eigin, þá fyrst er kominn tími til að bjóða fram annað en áhuga, fróðleiksfýsn og spurningar. Þá fyrst.

Samsíða

Er til betri leið til að vera (eða verða) sammála en að ganga hlið við hlið? Í orðsins fyllstu? Öxl í öxl, þar sem línur liggja í sömu átt?

Allt í kerfi

Hjá mér fer allt í kerfi, ef ekki er allt í kerfi. Meira að segja það að hreyfa mig að lágmarki 5 mínútur á dag er í kerfi. Ég sem elska hreyfingu og geri allt fyrir hana, þarf þennan ramma. Það síðasta sem ég geri í minni einföldu átta þrepa morgunrútínu er að hreyfa mig í 5 mínútur eða meira. Hvorki flókið eða mekkanískt „kerfi“, en virkar vel fyrir mig. Kosturinn við þetta eins og önnur kerfi er að það er létt að mæla, brilljant að breyta smátt og smátt og bæta við.

Þrenna vikunnar: Sjálfvirknivæðingin, auðæfin og frímínúturnar
Þrenna vikunnar: Sjálfvirknivæðingin, auðæfin og frímínúturnar 150 150 Freyr

Sjálfvirknivæðingin

Fjórða iðnbyltingin er hafin! Störf hverfa og breytast. Róbótar taka yfir margt sem áður var óhugsandi! Sumir eru óöruggir, jafnvel hræddir. Ég játa, ég er líka hræddur. Hræddur um þá sem taka ekki sjálfvirknivæðingunni opnum örmum í sínum rekstri! Enn hræddari er ég þó um þá sem taka „róbótana“ í sína þjónustu en láist að virkni-væða sig sjálfa, þ.e.a.s. hreyfa sig, fræðast, vera virk í samfélagi við aðra! Verum skynsöm, verum sjálf virk!

Auðæfin

Hvaða auðæfi eigum við meiri eða mikilvægari en tímann? Gætir þú gætt betur að þínum á einhvern hátt? Eða gengur þú um þinn auð eins og heimsins besta bisnessmanneskja?

Frímínúturnar

Fyrir mann á miðjum aldri getur verið skrýtið til þess að hugsa að barnaskóladagarnir hafi verið í þessu lífi. Svo margt hefur breyst frá því Viðar bóndi á Svanavatni keyrði í gegnum hlaðið heima í Hildisey á gamla Land-Rovernum og ók mér og öðrum niður í skólann í Gunnarshólma.

Við tóku vinnulotur, 40 mínútur að hámarki, við krakkarnir pössuðum vel upp á það! Þeirra á milli hlupum við út á tún (a.k.a. skólalóð) og hömuðumst í fótbolta, snjókasti eða hverju sem hæfði árstímanum, allt þar til kennarar kölluðu okkur inn, alltaf of snemma að okkur fannst!

Já, tímarnir breytast en ekki endilega mennirnir með. Ég hef a.m.k. fundið út að ég vinn enn best í 40 mínútna lotum eftir að hafa hamast úti á túni hér í Laugardalnum. Aðferðin nú kölluð fínu útlensku nafni, pomodoro og vá, hvað ég hefði verið til í að gefa í denn fyrir þann lúxus sem ég bý við núna… ég fæ sjálfur að stilla lengdina á frímínútunum!

Þrenna vikunnar: Af athygli og afskiptaleysi, vondum ferlum og ófullkomleika
Þrenna vikunnar: Af athygli og afskiptaleysi, vondum ferlum og ófullkomleika 150 150 Freyr

1-Hawthorne og afskiptu börnin

Bráðum er heil öld liðin frá því Hawthorne rannsóknirnar hófust. Þær sýndu svo ekki verður um villst að traustar og öruggar aðstæður og athygli eru grunn „næring“ starfsmanna. Að starfsmenn finni að þeirra framlag skipti máli, að eftir því sé tekið og þeim veitt athygli.

Fyrir rétt um þrjátíu árum, við fall járntjaldsins komu í ljós skelfilegar aðstæður á munaðarleysingjahælum í Rúmeníu. Þessi skelfing skapaði aðstæður til rannsókna sem sýndu að án snertingar, athygli og örvunar, þroskast börn ekki sem skyldi, líða fyrir alla tíð.

Ein grimmasta birtingarmynd eineltis er hunsun.

Með öðrum orðum, þín snerting og athygli getur skipt sköpum. Ef þú ert með starfsmenn í þínu liði, tékkaðu á þeim, af áhuga. Á hvaða leið eru þeir? Finnst þeim þeirra framlag skipta máli?

Áttu góðan vin sem skiptir þig máli? Veit hann það? Finnur hann að hans framlag skiptir máli?

Þitt framlag getur skipt sköpum.

2-Gott vont ferli

Nú ætla ég ekki að reyna að halda því fram sem algildum sannleik að vont sé gott, en þó mögulega í einu samhengi. Vont ferli getur t.d. verið miklu betra en ekkert ferli. Þú veist þó a.m.k. hvernig þú nálgast hlutina og getur unnið að því að gera þitt vonda ferli smám saman skömminni skárra.

Ég ætla að snara í einfalt dæmi. Við vitum öll að dagleg hreyfing gerir okkur gott. Jafnvel bara fimm mínútur á dag geta gert gæfumuninn. En samt dettum við út af sporinu. Þá spyr ég: Hvað er það einfaldasta ferli sem þú getur snarað upp í dag (t.d. strax að lestri loknum) til að halda þér á braut fimm mínútna daglegrar hreyfingar? Með viku- og eða mánaðarlegu uppgjöri á hvernig tókst til? Ferli sem þú gætir haldið út ævina? Jafnvel bara vont ferli sem þú gerir smám saman betra?

3-Ófullkomið

Ég hef nýtt haustið í að æfa mig að skrifa þér, æfingin skapar meistarann er sagt. Ó hvað ég á langt í land! Vegna þessa færðu á hverjum fimmtudagsmorgni frá mér ófullkominn póst. Póst sem gæti verið betri. Með þremur punktum sem hver og einn gæti verið betri.

Til þess að koma Þrennu vikunnar frá mér þarf ég því í dag sem aðra daga að rifja upp það sem John Lasseter, þá kvikmyndaleikstjóri hjá Pixar, sagði: „Við náum aldrei að fullgera myndirnar okkar, við frumsýnum þær.“