hundur

Hundurinn og rófan – Örbylgjuhoppið – Tíminn og textinn
Hundurinn og rófan – Örbylgjuhoppið – Tíminn og textinn 150 150 Freyr

Hundurinn og rófan

Stundum elti ég óróann inni í mér eins og hundur rófuna sína. Finn mig við skjáinn í endaleysu. Álíka kjánalegur og hundurinn, sé horft úr fjarska. Þá þarf ég að minna mig á að ég, rétt eins og hundurinn, á mér þjálfara. Sá er í öðrum hluta heilans, þessum skynsama.

Þessi “innri þjálfari” blæs því miður yfirleitt of seint í flautuna, eða ég hlusta ekki á hann, í öllum hamaganginum við að elta eigin rófu við skjáinn.

Hvað er til ráða?

  • Við getum kennt “hundinum” í okkur að hann leiki ekki frjáls, án þjálfara, hvenær sem honum dettur í hug!
  • Við getum skipulagt og bókað fyrirfram skjátímann, svo endaleysan fái enda!
  • Við verðum að tryggja að “flaut þjálfarans” sé þannig að við tökum eftir því!

Mikilvægt er að við séum umburðarlynd gagnvart “dýrinu” í þjálfuninni, reynum að skilja hvað fær það til að stökkva af stað, fyrirgefum því þegar það fer út af brautinni og reynum að læra inn á það.

Gott er einnig að hafa í huga að allir afþreyingar-hugbúnaðar-framleiðendur heimsins þekkja “hundinn” í okkur út og inn og leika á hann alla daga! Ef við leyfum “hundinum” að eiga leika sér ólar- og þjálfaralausum alla daga í slíku umhverfi, þá er nú nokkuð fyrirséð hvernig fer!

Örbylgjuhoppið

Hefurðu heyrt sögu Íedu Jónasdóttur Herman? Við Íslendingar kynntumst henni sem óstöðvandi töffara á tíræðisaldri. Mér gaf hún innblástur og ráð sem ég hugsa oft til.

Dæmi: Íedu fannst illa farið með tímann að bíða aðgerðalaus eftir örbylgjuofninum. Íeda bjó til “örbylgjuhoppið”. Hún notaði malið í örbylgjuofninum sem áminningu um hreyfingu. Hún hoppaði og hoppaði, án afláts, þar til ofn-bjallan gall. Lítið trix sem hélt henni á tánum, í orðsins fyllstu, langt fram á tíræðis aldur!

Tækifærin fyrir “örbylgjuhoppin” leynast víða. Okkar er að grípa þau!

Tíminn og textinn

Eftir slíka langloku má hugsa til Woodrow Wilson sem var spurður hvort hann gæti gefið 5 mínútna ræðu sem snöggvast? “Nei, alls ekki! Slíka ræðu tekur mig eina til tvær vikur að undirbúa, en ef ég má tala í klukkutíma eða meira, þá er ég tilbúinn strax!”

Þrenna vikunnar: Skölunin, borgarhundurinn og hamingjan í verkunum
Þrenna vikunnar: Skölunin, borgarhundurinn og hamingjan í verkunum 150 150 Freyr

1-Skölunin

Skölun er skemmtilegt orð. Ómetanlegt í öllum rekstri. Að finna módel þar sem innkoman vex, öllu hraðar en fyrirhöfnin og útgjöldin. Að vinna með vogarafl þannig að hvert handtak verði að hundrað. Hver manneskja sem margir, hvert lítið teymi sem tugir. Að hver og einn geti unnið minna en skilað meiru! Hreint ekki alltaf augljóst, en mögulegt. Leitið og þér munuð finna!

2-Borgarhundurinn

Sem sveitamaður vorkenni ég oft borgarhundunum. Það er líkast til óþarfi. Hjá góðu fólki eru þeir líklega í betri málum en „bakveikir í Borgartúni“*. Hundurinn fær matinn á silfurfati , jafnvel í orðsins fyllstu, með öllum helstu næringarefnum, nægur tími fyrir núvitund og hugleiðslu, skíturinn er skafinn upp eftir þá og hreyfingin, maður lifandi! Ganga eða hlaup kvölds og morgna alla daga, teymdur áfram af elskandi þjálfara! Kannski borgar sig að vera borgarhundur eftir allt saman?!

3-Hamingjan í verkunum

Hamingjan, hún er hér, söng vinur minn Jónas. Holl áminning. Við þurfum þá kannski ekki að bíða eftir næsta stóra díl, að ná á toppinn fyrst hamingjuna má allt eins finna hér, á krókótta stígnum sem við stikum, í erfiðinu í dagsins önn. Eða eins og Tagore sagði: „Ég svaf og mig dreymdi dásemdarlíf. Ég vaknaði og lífið var verkum hlaðið. Ég vann og ég vann og vittu til, í verkunum var mín dásemd.“**

Neðanmáls:

*”Bakveikur í Borgartúni” er frasi sem Simmi smiður og Bjarni Már bróðir nota gjarnan sem samheiti yfir okkur (of lengi) sitjandi skrifstofumenn.

**Þýðing mín á texta bengalska Nóbelskáldsins Rabindranath Tagore: „I slept and dreamt that life was joy. I awoke and saw that life was duty. I worked—and behold, duty was joy.“