Landeyjar

Þrenna vikunnar: Byrjað á brauði, kveikt og slökkt, á fílsbaki
Þrenna vikunnar: Byrjað á brauði, kveikt og slökkt, á fílsbaki 150 150 Freyr

Byrjað á brauði

Æskuminning. Kaffitími. Hlaðið borð af kræsingum. Kanelsnúðarnir nýkomnir úr ofninum. Ilmurinn lokkar lítinn mann. Teygi spenntur fram höndina að snúðafatinu. Vakinn af draumi. „Freyr minn! Hér byrjum við á brauði!“

Í dag. Vinnudagur. Hlaðinn heimur af spennandi upplýsingum. Nýjar fréttir streyma úr ofninum. Samfélagsmiðlarnir svigna af slúðri og hvers dags gleði og sorg. Teygi spenntur fram músarhöndina. Vakna af draumi við gamalt stef. „Freyr minn! Hér byrjum við á…“. Anda djúpt. Hugsa þakklátur til mömmu. Byrja á pistlinum.

Kveikt og slökkt

Kveikjur eða „triggerar“ eru skemmtilegt fyrirbæri. Hugmynd. Í hvert sinn sem ég heyri jólaauglýsingu þá nota ég það sem kveikju. Slekk á miðlinum. Kveiki á jákvæðni-radarnum. Finn eitthvað jákvætt í fari næstu manneskju sem ég hitti. Brosi. Hrósa.

Á baki fílsins

Ég er í miðri bók. „The happyness hypothesis“ eftir Jonathan Haidt. Himnasending hlaðin fróðleik. Höfundur líkir heila okkar við knapa á fílsbaki. Þar sem gamli, kviki, hræddi, viðbragðahluti heilans er fíllinn en skynsami rökvísi hluti heilans er knapinn.

Myndin er skýr. Ef fíllinn vill fara eitthvað, þó hann fælist bara undan mús, þá getur knapinn lítið gert annað en að reyna að hanga á baki. Knapans er að skilja, þjálfa og umbera hrædda dýrið.

Okkar er að sjá að við, okkar heili og hugsun sem heild, er bæði knapi og fíll. Ef knapinn setur stefnuna, temur, stýrir og skilur skepnuna, þá er fátt sem stöðvar, þó ýmislegt geti hent á langri leið.

Ef ég hefði vængi
Ef ég hefði vængi 150 150 Freyr

Ég er þéttbyggður lágvaxinn karlmaður á miðjum aldri. Ekkert sérstaklega vel byggður til flugs, a.m.k. ekki langflugs. Mér er sama, ég flýg nú bara samt. Á stundum finnst mér nefnilega ágætt að smella á mig vængjum andans og lyfta mér svolítið upp.

Á fluginu opnast nýjar víddir og ný sjónarhorn. Ef frelsið er algjört hvert flýg ég þá? Með lokuð augun skelli ég mér í Skálavík, eftir að hafa rennt mér eftir Rauðasandi, leikið við fugla í Látrabjargi. Ég dáist að spegilsléttum Pollinum í logninu á Ísafirði, kem suður með fjaðraþyt og söng, svíf vængjum þöndum yfir sveitir sunnanlands, lendi á Landeyjasandi, horfi og hlusta á brimið, dáist að fjallahringnum. 

Eftir flugferðina er erfitt að brotlenda ekki. Í aðfluginu sé ég lítinn kall. Er ég þessi stubbur þarna niðri sem starir á skjáinn, aleinn, stífur í hálsi með stuttan andardrátt? Er ég á réttri leið? Er ég að gera það sem lætur mér líða vel? Er ég að gera gagn?

En hvað með þig? Ert þú að gera það sem þú vilt vera að gera? Ef þú hefðir vængi, hvert flygirðu þá? Hvert skellirðu þér í gegnum skýjamúr, burtu frá hversdeginum? Eða er lánið með þér? Er hversdagurinn einmitt eins og þú vilt hafa hann? Ánægjulegt akkeri, regla, grunnur og þessi störukeppni þín við skjáinn núna jafnvel kærkomin hvíld?

Fleira er flug en flug yfir lönd og strönd, toppurinn gæti reynst tímaflug. Flug fram og aftur eftir okkar óþægilega takmörkuðu tímalínu getur verið ágætis æfing. Ertu til?

Ef þú gætir nú flogið aftur í tímann, segjum fimm ár, tíu, tuttugu (allt eftir hvar þú ert á tímalínunni) og hittir þig sjálfa(n) fyrir. Ef þú fengir tækifæri til að gefa þessari yngri og óreyndari útgáfu af sjálfum þér innileg ráð. Hver væru þau? Gætu þau gagnast einhverjum í dag?

Fljúgum nú fimm ár fram í tímann (eða tíu/tuttugu), framgangur framar vonum, allt hefur gengið upp! Á hvaða stað ertu þá? Hvað liggur eftir þig? Hverju hefurðu náð? Hvaða fallegu hluti segir fólk um þig þá? Af hverju er það svona ánægt með þig? Viltu prófa að skrifa þetta niður? Ef þig getur dreymt þetta… ja við vitum bæði að góðir hlutir gerast hægt og draumar geta ræst!

Ert þú með vængi? Tökum flugið!


Innblástur

Ef ég hefði vængi. Lag og ljóð – Halli Reynis.

Textar og tónar lifa. Hugur minn er hjá fjölskyldu Halla, Steinunni, strákunum, fjölskyldu og vinum.

Fermingargjöfin
Fermingargjöfin 150 150 Freyr

Ég fermdist á fjórtánda ári. Í félagsheimilinu Gunnarshólma var haldin veisla mér til heiðurs. Mikill gleðidagur. Sveitapiltsins draumur. Fjöldi vina og fjöldi gjafa. Tjald og svefnpoki, bækur, fallegir seðlar. Ég hafði ekki séð svo marga seðla um ævina. Einn gaf þúsund, annar tvö. Þegar ég opnaði umslag með fagurbláum fimmþúsund króna seðli tók hjartað kipp. Í sæluvímu gekk ég um salinn og þakkaði fyrir mig. Ég náði loks að borðinu hjá Árnýju afasystur minni og Árna frá Helluvaði, náði að stynja upp þökkum fyrir þann bláa. ,,Fyrirgefðu mér“, sagði frænka af einlægni. Ég brosti, skildi ekkert.

Árin síðan eru orðin þrjátíu og eitt. Ég er enn orðlaus af þakklæti eftir daginn og enn reyni ég að skilja frænku. Reyni enn að ná í huganum utanum stærstu fermingargjöfina, orðin. Fallegu gjafirnar eru flestar týndar og seðlarnir farnir frá mér, en orð Árnýjar fá mig enn til að hugsa minn gang. Orð sögð af einlægni og römmuð inn af þeirri eftirsjá að hafa ekki gefið meira.

Á hverjum degi höfum við val. Við gefum og þiggjum í samskiptum. Hvernig gefum við barni ráð, viðskiptavini þjónustu, vini stuðning, áheyranda orð? Er það einlæg gjöf? Án eftirsjár? Er það gjöf hugsjónar eða tilgangs? Erum við að gefa af okkur, eða gefa fyrir okkur sjálf? Höfum við raunverulegan áhuga? Sjáum við kannski mest eftir að gefa ekki meira af okkur?

Vonandi er það þannig því það merkilega er, að með því að gefa af einlægni og af okkur sjálfum erum við ekki bara að gera það allra besta fyrir samferðamennina, heldur líka fyrir okkur sjálf. Hvort sem það er í einkalífi eða störfum (þó ekki án allra undantekninga, eins og Adam Grant velti upp).

Dagurinn í dag er góður til að gera vel, bæta sig, gera enn betur en í gær. Þetta er frábær dagur fyrir okkur til að vera góð og gefa. Ef við gefum af sjálfum okkur, af einlægni, það allra besta sem við eigum, er aldrei að vita nema gjöfin endist ekki bara daginn, heldur lífið allt, eins og orð Árnýjar frænku minnar um árið.

Fyrirgefðu mér.


Innblástur

Ljóðlínur KK úr Þjóðvegi 66:

„…til eru höfðingjar við Íslands bláu fjöll
sem heldur vilja deyja en lifa í þeirri smán
að hafa ekki gefið sem þeir gátu verið án.“

Frekari lestur

Give and take – Adam Grant, sjá einnig samantekt hér.

How to Win Friends and Influence People – Bók Dale Carnegie, samantekt Samuel T. Davis

Tætt í gegnum daginn
Tætt í gegnum daginn 150 150 Freyr

Í landbúnaði lærði ég fyrst að vinna. Ungur tók ég hvers kyns vélavinnu fegins hendi, eins og að tæta upp tún. Á Zetor dólaði ég áfram í lága drifinu. Árangurinn náðist með einfaldri aðferð. Að byrja snemma, stoppa aldrei, láta ekkert trufla sig og hætta ekki fyrr en síðasti blettur var tættur. Ekki einu sinni kall náttúrunnar fékk að trufla, með handolíugjöfina fasta hélt ég í stýrið með annarri og vökvaði flagið með besta vininum með hinni. Einfalt líf á beinni braut.

Við vélavinnu sem þessa er maður strammaður af og í einum ham. Svo lengi sem svefninn er nægur til að sofna ekki undir stýri er maður í einföldustu vélavinnu í nokkuð góðum málum.

Nú er öldin önnur. Í borginni er ekki nein bein braut fyrir mig að aka eftir. Í frelsinu á skrifstofunni þarf ég að finna brautina sjálfur, hemja mig og temja.

Uppskriftin mín er svipuð og í sveitinni. Ef ég á krefjandi verkefni fyrir höndum þá virkar best að mæta snemma, vera vel sofinn, tryggja að ekkert geti truflað, slökkva á öllum tilkynningum í síma og tölvu, gera öllum ljóst að nú sé ég í ham¹.

Rétt er að taka fram að ekki eru allir morgunfuglar. Sumir eru nátthrafnar og skrifa og skapa best að kvöldi. En sama gildir hvort er morgunn eða kvöld, verkefnavings (e. multitasking) er vonlaus aðferð við krefjandi og skapandi vinnu, já líka fyrir ykkur konur!2

Við tætingar á túnum í sveitinni gat maður haldið áfram meðan enn var olía á tanknum og afköstin voru mest undir vélinni komin. Í borginni er það andinn okkar sem ræður afköstum. Andinn afkastar best í ,,fókuseruðum“ lotum og sprettum, ekki á langtíma lulli í lága drifinu. Við erum betri ef við tökum alvöru pásu. Vatnskælirinn eða kaffivélin eru þekkt fyrir að gefa góðan innblástur. Sannreynt er að skjálausar pásur, á hreyfingu, helst utandyra, með öðrum, gefa andanum besta fóðrið3.

Þegar líða fer á daginn og lækka á tankinum hjá okkur morgunfuglum er fínn tími til að koma sér í léttari verk. Þá er fínt að afgreiða tölvupósta eða fyrirspurnir, helst í lotu, hringja símtölin sem þarf að hringja, eða gera hvað annað sem krefst ekki of mikils andlegs styrks.

Að loknum degi getum við vonandi litið sátt yfir afköstin á ,,akrinum“. Þá búin að tæta í gegnum verkefni dagsins, vonandi ekki of tætt samt… og getum haldið heim á ný, fyllt aftur á tankinn, tilbúin í nýjar áskoranir á nýjum degi. Heldurðu að þú komist í ham í dag?


Pistillinn er tileinkaður pabba, sem hefði orðið 67 ára í dag. Hann kenndi mér að vinna. Með góðu fordæmi, nærveru og samveru sem ég sakna í dag sem aðra daga.


  1. Víða í ráðgjafarvinnu minni segir mér fólk sem vinnur í stórum opnum rýmum að vinnustaðurinn á vinnutíma sé ekki góður til að vinna. Pælið í því! Stór opin vinnurými eru ekki uppskrift að starfsánægju eða árangri, punktur! Já það má kaupa höfuðtól, mæta fyrr, vinna heima… en væri ekki betra að hanna vinnurýmið þannig að það henti til að ná afköstum og árangri? Líklega efni í sér pistil, en læt þennan punkt duga í bili.
  2. Rannsóknir sýna að karlar og konur eru jafn afleit í að ,,gera tvennt í einu“. Sjá t.d. pistil um málið hér.
  3. Daniel H. Pink fer vel yfir pásur til afkasta í öðrum kafla bókarinnar When. Sjá samantekt Samuel T. Davis hér.
Gefum sprettunum allt
Gefum sprettunum allt 150 150 Freyr

Ég kynntist sprettum fyrst sem lítill polli í Landeyjum. Þar átti ég fyrstu ,,yfirhraða-sprettina“ þegar ég hljóp hangandi á kálfahölum eftir túnum. Lífið var gott. Leiðinlegustu sprettina átti ég þegar ég rak nautheimskar kvígur og kindur milli svæða, ,,hvattur“ áfram af móður minni. Með því að leggja alltaf aðeins of seint af stað náði ég flesta morgna góðum spretti út heimreiðina í kappi við skólabílinn, gjarnan með skólatösku í annarri og ritvél í hinni, íþróttataska á baki.

Með viti og árum hefur dálæti mitt á sprettum aukist. Ég hreinlega elska spretti. Kollur og kroppur krefjast þeirra og þarfnast. Því ákafari, því betri. Interval er uppáhald. Endurteknir sprettir sem gefa blóðbragð, endorfín og bætt þol. Sprettir sem gefa hreysti og hamingju í einum pakka! Ég nýt spretta upp stiga, eftir gangstétt, upp á fjall. Ég þrífst á sprettum á hjóli, sprettum með börnum, sprettum með bræðrum.

Andans sprettir eru mér litlu minni unaður. Afmörkuð einbeitt vinna að einu marki. Pomodoro-klukkan tifar meðan heimsins hamagangur bíður. Ég set upp vinnusprett fram að mat. Með vinnu-teymum hér og hvar finn ég út hverju við viljum áorka í vikunni. Allir í teyminu leggjast á árar og róa í sömu átt í einum spretti. 

Hvort sem ákefð sprettsins reynir meira á andann eða líkamann má alltaf horfa með eftirvæntingu til endamarksins. Fegurðina má finna í afmörkuninni, þéttum ramma. Allir sprettir eiga upphaf og endi. Reglurnar einfaldar og öllum ljósar.

Sprettir eru sannarlega krefjandi en þeir gefa líka af örlæti til baka. Því meira sem þú gefur, því meira færðu. Eins og skáldið sagði: ,,Stefnirðu á næsta stig? Þá þarftu að reyna á þig!“ Í áköfum sprettum fáum við að glíma við okkur sjálf. Við ýtum okkur að mörkum þess mögulega, eða enn betra, ýtum við mörkunum! Með endurteknum sprettum af mikilli ákefð náum við að bæta okkur.

Sprettur verður þó vart að fullu gagni nema hvíldin sé rétt. Líkaminn og andinn þurfa hvíld og endurmat til að við bætum okkur. Sannleikurinn birtist í uppgjörinu. Í þessu mikilvæga augnabliki að spretti loknum. Þá er stundin til að staldra við og líta um öxl. Hvernig gekk? Gaf ég allt sem ég átti? Get ég gert betur næst? Hverju þarf ég þá að breyta? Hvernig kemst ég á næsta stig? Hvernig stígur teymið upp og nær að gera betur næst?

Uppgjörið við enda spretts er stundin til að sætta sig við orðinn hlut. Sprettinum er lokið. Þú færð engu breytt um liðna lotu. Þá má heldur hlakka til. Þá má hugsa hvernig tækla má tækifærið framundan, þennan spennandi næsta sprett. Er þá nema eitt að gera? Gefðu allt sem þú átt!

—–

Innblástur

Gengið í takt
Gengið í takt 150 150 Freyr

,,…vinstri hægri, einn, tveir, einn, tveir, vinstri, hægri… staðar nem, einn, tveir!“

Sögusviðið er Gunnarshólmi í Austur-Landeyjum. Við, yngri deildin, tæplega tuttugu krakkar úr þremur yngstu bekkjum skólans, gengum hring eftir hring í litla salnum. Inni í hringnum lagði línurnar Albert á Skíðbakka, bóndinn af næsta bæ sem gaf sér tíma milli mjalta til þess að kenna okkur púkunum eina af mikilvægustu lexíum lífsins, að ganga í takt. Eftir takti Alberts örkuðum við, tókum tilsögn, réttum úr okkur, reyndum að forðast að stíga (kína)skóna af næsta manni. Eftir ótal hringi byrjaði parketið loks að dúa í takt, bóndinn brosti: ,,…vinstri, hægri, staðar nem, einn tveir!“. Upphitun lokið og glíman tók við.

Í dag fæ ég stundum að standa inni í hringnum og hjálpa til við að koma rétta taktinum á, en nú er það eldri deildin. Það heitir ekki lengur vinstri, hægri eða gönguæfing. Í dag heita æfingarnar útlendum nöfnum eins og Scrum og Kanban, takturinn er sleginn með daglegum standandi fundum, reglulegum sýningum og rýni á vinnubrögðin þar sem gefst færi á að laga taktinn, því lítið gengur ef skórinn er stiginn af næsta manni í öðru hverju skrefi.

En þvílík sæla þegar ,,parketið“ fer að dúa í takt, þegar hópurinn greikkar sporið, ánægja og afköst aukast. Þá hugsa ég með þakklæti til lexíunnar austur í Landeyjum, sé fyrir mér gamla bóndann Albert, teinréttan og glaðbeittan, leggja grunninn að lífsins glímu. „…áfram gakk, einn, tveir!“

Lengi má manninn bæta
Lengi má manninn bæta 150 150 Freyr

Ég var ekki svo lánsamur að kynnast sykurpúðum í æsku. Ég er ekki viss um að þeir hafi fengist í Kaupfélagi Rangæinga á þeim tíma. Frændur þeirra, sykurmolana sem og fagurlitað kökuskraut, fann ég þó einn og óstuddur í eldhússkápum móður minnar. Grunlaus var ég um að meðan ég gekk hvað harðast fram gegn finnskættuðum sykurmolum austur í Landeyjum rýndu sálfræðingar í Ameríku í hvaða máli skiptir fyrir lífshlaup barna að standast sykraðar freistingar. Sálfræðingarnir settu sykurpúða fyrir framan barn, lofuðu því tvöföldum skammti gegn góðri bið og fylgdust með hvernig því gekk að halda aftur af sér. Með langtímarannsóknum komust þeir að því að lífslánið virtist fylgja ótrúlega vel árangri á þessu ofurlitla prófi í æsku. Geta barnanna til að standast freistingarnar, að hemja hvatir sínar í prófinu, hafði mikið forspárgildi um hvernig þeim vegnaði þegar leið á lífið.

Framangreinda speki las ég í bókinni um sykurpúðaprófið, The Marshmallow Test. Vegna sambúðar minnar við sykur og aðrar freistingar í æsku var ljóst í upphafi bókar að vonir mínar til árangurs í lífinu væru mjög takmarkaðar. Ég var að því kominn að henda bókinni á haugana. Það bráði þó af mér, ég las bókina til enda og eygði að endingu smá von.

Von mín vaknaði við að finna út að börnin sem stóðu sig betur á sykurpúðaprófinu voru ekki endilega fædd með meira mótstöðuafl. Það sem frekar réð var hve fær þau voru að „fífla“ sig sjálf. Börnin sem stóðu sig betur settu jafnvel upp lítil leikrit í huganum. Þau gáfu sér að molarnir væru myndir, lærðu að telja endalaust fingur og tær eða söngla lag. Þau gerðu hvað þau gátu til að halda löngun í freistingu frá. Það hvernig við tökumst á við freistingar getum við sem sagt undirbúið og æft og sannarlega þar með æft börnin okkar og aðra áhugasama í færninni.

Auðvitað má segja að auðveldasta leiðin til að standast freistingar sé að koma þeim úr augsýn. Heima borðum við ekki bollurnar sem bíða enn í búðinni. Símar titra ekki í tíma og ótíma nema stillingarnar leyfi það. En jafnvel þó að okkar sé freistað, getum við undirbúið viðbrögðin, skipulagt og jafnvel æft. Þreytt og/eða óundirbúin erum við líklegri til að falla í freistni, æfð og undirbúin getum við staðið klár. Fyrir suma er nóg að taka eina ákvörðun, aðrir þurfa að undirbúa sig og æfa reglulega allt upp í nokkrum sinnum yfir daginn… jafnvel alla ævi.

Að loknum lestri bókar var sem sagt niðurstaða mín að ég væri ekki með öllu vonlaus. Þrátt fyrir grá hár og grunn sem augljóslega var vart á byggjandi væri nú mest um vert að gyrða sig í brók, gefast ekki upp fyrir sjálfum sér. Með vilja og smá von má lengi manninn bæta!

Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?!
Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?! 150 150 Freyr

Ég var landbúnaðarverkamaður í Landeyjum. Ekki ráðinn, heldur sonur foreldra minna, bænda í Hildisey. Ég var samt tiltölulega langt frá því að vera endilega fæddur í starfið eins og sagt er. Mamma vildi meina að ég væri færastur í því að færa mig undan. Fá Örvar litla bróður til þess að vinna verkið. Hann þurfti ekki að biðja tvisvar. ,,Sko! Sjáðu bara Örvar”.

Í mínum huga glymja enn ,,hvatningarorð” eins og: ,,Freyr!!! Hver heldurðu að vilji nokkurn tíma ráða þig í vinnu?!”

Ég sagði ekki neitt. Blótaði nokkrum sinnum í hljóði. Hætti að skipuleggja í huganum næstu íþróttaæfingu. Hélt áfram að skafa fjósbitana. Verkið var rétt utan við mitt kjarna áhugasvið, það augnablikið, skulum við segja.

Þökk sé Andra yngri bróður okkar, þá er mamma sennilega búin að gleyma þessu. Andri var nefnilega verri! Mamma hætti fljótlega að reyna að fá hann til verka. Andri var ónytjungur.

Mér flaug þetta í hug aftur í vetur. Ég sat í Háskólabíói. Salurinn var troðfullur. Kastararnir lýstu upp sviðið. Laglínan lipur. Textarnir tær snilld. Útsetningarnar þvílíkt afbragð. Í miðjum hópnum stóð Andri og spilaði og söng. Stóri bróðir varð stoltur og meyr.

Andri hafði fundið fjölina sína.

Í dag er Andri nákvæmur, frumlegur, skapandi, harðduglegur tónlistarmaður sem unnir sér sjaldan hvíldar. Gerir það sem hann langar til þess að gera.

Í dag eru tækifæri um allt. Möguleikarnir og leiðirnar óteljandi. Þú getur gert það sem þig langar til þess að gera. Meira en það. Ef þú vilt ná árangri þá skiptir öllu máli að þú finnir hvað það er. Að þú finnir ástríðueldinn og hellir svo olíu á.

Þá verður slegist um að ráða þig í vinnu. Eða, þú býrð þér til þína drauma vinnu. Ræður til þín fólk. Þá skiptir máli að ráða rétt. Hugaðu þá að ónytjungunum! Þeir leynast víða!

—–
Fyrst birt á blandan.net 10.5.2013