leiðtogar

Stjórnun sem sjálfboðastarf, brjálæði eða besti skóli?
Stjórnun sem sjálfboðastarf, brjálæði eða besti skóli? 150 150 Freyr

Ég vildi að ég gæti sagt þér að leið mín í gegnum lífið hafi öll verið útpæld og plönuð. Það kæmi líklega betur út fyrir stjórnendaráðgjafann en svo er einfaldega ekki. Flestar mínar stærri ákvarðanir hef ég tekið í stundarbrjálæði, án þess að rýna náið í hvað á eftir kæmi.

Í upphafi árs 2009 tók ég eina slíka ákvörðun. Frjálsíþróttadeildin í hverfinu mínu, frjálsíþróttadeild Ármanns, mátti á þeim tíma muna sinn fífil fegurri. Mér var ekki sama og sá þarna gríðar stóra og mikla áskorun. Á þessum tíma rétt eftir hrun var ég í leit að tilgangi, frekar en verkefnum. Ég var önnum hlaðinn við að stýra stórum alþjóðlegum hugbúnaðarverkefnum en of oft hafði ég séð hugbúnaðinn enda á hillu og rykfalla þar eftir allt erfiðið. Í stundarbrjálæði í þessari hrunvímu ákvað ég sem sagt að safna liði og leggja mitt að mörkum til að byggja upp íþróttastarf í hverfinu. Án þess að átta mig fyllilega á því festi ég mig með þessu sem stjórnandi í sjálfboðastarfi.

Stundirnar sem fóru í þetta verkefni voru ótal margar og oft krefjandi, mun fleiri en mig gat órað fyrir. En þó finnst mér núna að þetta verkefni hafi gefið mér margfalt meira en ég hef lagt að mörkum. Í félagsstarfinu gefast einstök tækifæri til að þróa sig og þroska. Að kafa í mannhafið, kynnast fólki, læra inn á eðli þess og áhuga. Það er góður skóli og kennir meira en nokkur bók eða fyrirlestur.

Í mínu verkefni hef ég lært gríðar mikið um verkefnastjórnun, viðburðastjórnun, sölu og markaðsstarf, samstarf við fjölmiðla, lært um skipulag íþróttahreyfingarinnar, borgar og stjórnmála svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef byggt upp tengsl við gríðar margt einstaklega gott fólk sem ég mun lifa á það sem eftir er og er endalaust þakklátur fyrir. Þetta tengslanet hefur nýst mér vel núna á fyrstu mánuðum mínum í að byggja upp mitt ráðgjafarfyrirtæki.

Nú eru rúm sjö ár liðin. Fyrir um tveimur vikum hætti ég sem formaður frjálsíþróttadeildar Ármanns og tek við nýju sjálfboðastarfi hjá FRÍ. Á þessum tímamótum lít ég til baka. Nú get ég miðlað af reynslu og sagt án þess að hika, ef þú sérð áskorun sem krefst mikils af þér, tækifæri til að taka að þér krefjandi verkefni í sjálfboðastarfi, láttu vaða! Ekki bara fyrir félagsskapinn eða verkefnið, heldur líka þín vegna! Þú færð það margfalt til baka.

Vilt þú ná árangri?
Vilt þú ná árangri? 150 150 Freyr

Einn minn kærasti mentor fyrr og síðar tók mig afsíðis. Við vorum stallbræður í þjálfun, ég að gutla við að æfa sjálfur, hann nærri höfðinu hærri, fjórtán árum eldri. Kappinn snéri sér að mér, horfði djúpt í augun á mér og spurði: „Hvernig er það með þig Freyr Ólafsson, vilt þú ná árangri?“ Ég umlaði og hummaði og reyndi um leið að sannfæra þennan þrekvaxna Ólympíufara að tuttugu og tveggja ára gamlan sveitastrák vantaði ekki viljann. „Hvenær ætlar þú bara að kýla á þetta og fara alla leið?“ spurði hann áfram af yfirvegun og þunga og sínum uppörfandi áhuga. Ég hrökk við, reyndi að halda kúlinu, en varð fátt um svör.

Vésteinn Hafsteinsson hefur fyrr og síðar spurt fjölda fólks svipaðra spurninga. Sumir hafa hrokkið í kút og hikað, eins og ég á þessum tíma. Aðrir hafa fundið svarið í eigin kjarna, „kýlt á þetta“ og farið alla leið, hafa sýnt og sannað að þeir vildu raunverulega ná árangri, jafnvel orðið bestir í heimi.

Ótal stjórnendur og þjálfarar hafi mikla tæknilega færni og þekkingu á sínu sviði og geta sagt fólki sínu til, það hjálpar, en er það aðal atriðið? Í mínum huga hafa yfirburða stjórnendur og þjálfarar, eins og Vésteinn, það lag sem þarf á því að komast inn í kjarnann og kveikja í fólki. Þeir spyrja krefjandi spurninga sem lifa með því og hvetja áfram. Hjálpa því að finna viljann og löngunina hjá sjálfum þér.

Krafturinn er þarna á sínum stað, inni í þér. Það er enginn annar en þú sem getur fundið viljann til að ná árangri. Þú þarft að þora að stíga skrefið og fylgja eigin sannfæringu. Þú þarft að hunsa allar þær ótal efasemdarraddir sem sífellt telja úr þér kjark, dusta púkunum af öxlunum og halda áfram. Góður yfirmaður og þjálfari styður þig, bendir á púkana. Hjálpar þér að trúa en efast ekki.

En hvernig er þetta annars með þig, viltu raunverulega ná árangri? Hvenær ætlar þú bara að kýla á þetta og fara alla leið?

Þögnin, næðið og tilgangurinn
Þögnin, næðið og tilgangurinn 150 150 Freyr

Ráðgjöf er fallegt íslenskt orð. Að gefa ráð. Þó erum við ráðgjafar ekki endilega þekktastir fyrir gjafmildi okkar þegar kemur að ráðum, heldur mögulega frekar lipurð okkar í að skrifa reikninga fyrir ráðleggingarnar. En mig langar sannarlega að standa undir nafni og gefa þér mín allra bestu ráð.

Mig langar að stinga saman nokkrum stefjum sem ég nota til að temja sjálfan mig, enginn endanlegur sannleikur, heldur aðferð sem ég beiti og líður vel með. Þessi pistill er upphafið að pistlaröð sem ég veit ekki enn hvernig endar en ég kalla nú: ,,Besta(ða) útgáfan af sjálfum þér.“

Þögnin, næðið og tilgangurinn

Valgeir Guðjónsson spurði í texta sínum, mögulega meira í gríni en alvöru: ,,Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? […] Hver er ég? Hvar endar alheimurinn? Skyldi’ […] hann enda inni í mér?“ Hver sem hugsun Valgeirs var þykir mér fá stef meira viðeigandi sem upphafsstef.

Hefur þú raunverulega tekið þér stund í næði til að velta fyrir þér kjarna þínum og tilgangi? Hverju þú vilt ná fram? Þar til þinn tilgangur er ljós er ég í sömu stöðu og ráðgjafi Lísu í Undralandi, kötturinn, áður en Lísa vissi hvert hún væri að fara. Áður en ljóst er hvert þú stefnir þá skiptir minna máli í hvaða átt þínir fætur feta.

Þögnin eða næðið sem þú þarft til að hugsa um þinn tilgang, hoppar ekki upp í fang þitt óumbeðið. Hvort sem þú finnur þína stund í kyrrð snemma morguns, á hjóli, fjallstindi eða á bekk í fjölmenni þá eru miklar líkur á að þú þurfir að hafa fyrir því. Það er nefnilega miklu léttara að fljóta með straumnum og taka við áreitinu, fylgja öðrum. Það kostar orku og áræði að taka um stýrið, taka ábyrgð, útiloka áreitið og líta sér nær, leiða sjálfan sig og aðra.

Mín leið er að bóka tíma með sjálfum mér. Ég á bókað stefnumót með sjálfum mér einu sinni í mánuði. Snemma morguns meðan aðrir sofa fer ég yfir minn tilgang í næði.

Í upphafi velti ég fyrir mér hlutunum án nokkurs texta. Síðar fann ég mér blað og skrifaði nokkrar línur. Nú er blaðið fullt. Þetta gæti ég kallað stefnumótunarskjal fyrir sjálfan mig. Ég les yfir skjalið og ítra mánaðarlega, breyti því og reyni að bæta, tek nýtt mið. Ég leik mér að því horfa á sjálfan mig og heiminn með augum fugls sem flýgur. Stundum hendi ég inn spurningum eins og, hvað ef ég get allt? Hvað ef það eru engar takmarkanir? Hvað þá? Eða hvernig get ég tryggt að ég skipti engu máli? Fjarlægt sjálfan mig út úr jöfnunni, hvað þá?

Aðferðirnar til að finna sig og sinn tilgang eru óteljandi margar, hvaða nálgun þú velur er aukaatriði. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að þú takir með vilja þessa ábyrgð á sjálfum sér. Með þessari reglulegu hugarleikfimi tel ég mig nú þokkalega undirbúinn ef ég skyldi rekast á köttinn á förnum vegi.

Af hverju ætti einhver að vilja vinna fyrir þig?
Af hverju ætti einhver að vilja vinna fyrir þig? 150 150 Freyr

Þú ert vel lesinn stjórnandi. Með fimm háskólapróf! Fyrsta einkunn lágmark. Hakað í öll boxin hjá þér. Mesti sérfræðingur landsins á þínu sviði. Ég trúi ekki öðru en allar hæfisnefndir heimsins elski þig! En vill einhver í raun vinna fyrir þig? Vinna með þér? Nær þitt fólk góðum afköstum og árangri og vex í starfi?

Þú ert ekki eini stjórnandinn sem keppir um hylli góðra starfsmanna. Atvinnuleysi á Íslandi er sáralítið. Laun hafa hækkað og kaupmáttur þeirra hefur vaxið. Starfsmenn njóta ágætra réttinda og góðs aðbúnaðar, ekki bara hjá þér heldur víðast hvar. Þá má ekki gleyma að þó Ísland sé eyja, þá er hún hluti af heiminum öllum sem er leiksvið unga fólksins í dag. Það hefur val hvar það vinnur. Dalvík eða Drammen, Reykjavík eða Rotterdam.

Mín sýn er sú að lykilinn að því að einhver vilji vinna fyrir þig, að minnsta kosti til lengri tíma, sé ekki endilega að finna í háskólagráðunum. Nær væri að leita í viskubrunn ömmu þinnar. Nokkur lykilorð sem ég tengi meira við ömmur mínar en háskólamenntun eru: Væntumþykja og skilningur, einlægur áhugi og notaleg fjarlægð og frelsi.

1. Væntumþykja og skilningur
Grunnur að því að leiða aðra er að líða vel í eigin skinni. Að þykja vænt um sjálfan sig og þekkja sjálfan sig. Á þeim grunni þarf að byggja til að geta sýnt væntumþykju og skilning á aðstæðum og áhugahvötum annarra.
Manneskjan er í eðli sínu sjálfhverf. Hörðustu naglar vilja ekki viðurkenna það en samt líður mönnum betur þar sem yfirmaðurinn skilur þá og þeir finna fyrir stuðningi og væntumþykju, eins og hjá ömmu. Það er lykilatriði að yfirmaðurinn skilji hvað drífur starfsmanninn helst áfram.

2. Einlægur áhugi
Ef fyrsta þrep er væntumþykja og skilningur, þá er annað þrep einlægur og sannur áhugi. Eins og þeir muna sem hafa lesið um Hawthorne rannsóknirnar þá er löngu vitað að raunverulegur áhugi og athygli stjórnenda er ekki bara lykilatriði í vellíðan starfsmanna heldur einnig framleiðni þeirra. Þetta er enn mikilvægara núna þegar líður að 100 ára afmæli upphafs rannsóknanna og hlutfall þekkingarstarfsmanna hefur margfaldast.
Hver er ástæðan fyrir því að starfsmaðurinn valdi að vinna með þér? Hverjar eru hans aðstæður í dag? Hvert stefnir hann næst? Styrkir það mögulega samband ykkar að ræða opinskátt hvert starfsmaðurinn stefnir? Eins og segir hér á nokkrum glærum. Ef starfsmanninum og hans vegferð til þroska og eflingar er sýndur einlægur áhugi, þá aukast líkur á því að hann eflist og enn fremur að ykkar samband styrkist, öllum til hagsbóta.

3. Notaleg fjarlægð og frelsi
Ég vona að þú hafir eins og ég upplifað bros og bjarma frá ömmum þínum, jákvæðni gagnvart þinni framtíð en um leið þessa hæfilegu fjarlægð ömmunnar sem leyfði þér, innan eðlilegra marka, að njóta þín frjáls í því sem þú hafðir mestan áhuga á. Ömmur vita sínu viti því rannsóknir sýna að sjálfræði í starfi hefur meiri að segja en margt annað um ánægju og framleiðni þekkingarstarfsmanna. Sjálfræðið gefur ágætlega launuðum og skapandi þekkingarstarfsmönnum meira en t.d. fjárhagsleg umbun eða bónusar við störf og verkefni. Ekki veit ég hvort Daniel H. Pink lærði meira um mikilvægi sjálfræðis í starfi af ömmu sinni eða í háskóla en ég verð að mæla með því hvernig hann nálgast sjálfræði og fleiri drifkrafta starfsmanna í þessu 10 mínútna myndbandi.

Kæri núverandi og/eða verðandi leiðtogi. Það er frábært að mennta sig og sérhæfa, háskólanám er góður grunnur og vonandi hættirðu aldrei að leita svara og þekkingar, en ekki halda að amma þín sé ekki enn með gagnlegustu svörin!