nýsköpun

Hrífandi texti- Nýsköpunaruppskrift – Á morgun
Hrífandi texti- Nýsköpunaruppskrift – Á morgun 150 150 Freyr

Hrífandi texti

Hvað þarftu til að hrífa fólkið með? Gæti hnitmiðaður texti gert gæfumuninn? Myndrænn, hvetjandi og skiljanlegur texti sem heillar hvern sem heyrir eða les? Jafnvel heila þjóð?

„Við veljum að fara til tunglsins. Við veljum að fara til tunglsins áður en áratugurinn er allur, […] ekki vegna þess að það er létt, heldur vegna þess að það er erfitt, því þetta markmið mun nýtast okkur við að ná utanum og mæla okkar fremstu krafta og færni, því þetta er áskorun sem við viljum takast á við, erum ófáanleg til að fresta, og ætlum okkur að sigrast á[…]” John F. Kennedy, 12. sept 1962

Nýsköpunaruppskrift

Áhöld og efni:

1 klár kollur, helst fleiri auk óþrjótandi úthalds

1 pottur

10 hugmyndir, ósíaðar

1 niðurskurðarhnífur, flugbeittur

Hendið 10 hráum hugmyndunum í pott. Skolið ekki. Stelið jafnvel frá öðrum.

Látið liggja í pottinum í a.m.k. eina nótt.

Hrærið í að morgni og hendið úr því sem illa þolir nýju dagsbirtuna.

Leyfið bestu hugmyndunum að krauma áfram.

Áður en rétturinn er tilbúinn, sýnið og smakkið til með sem flestu fólki.

Betrumbætið og kryddið.

Takið loks upp úr pottinum og berið fram snotra litla bita á fallegu fati (viðbúin að þurfa að bæta enn næstu hræru).

Á morgun

Það er svo gott við þessa daga að það kemur alltaf einn til. Þó gærdagurinn hafi ekki farið að óskum, þessi fari jafnvel stirðlega af stað, þá má alltaf nýta það sem eftir lifir dags til stilla sig af fyrir nýtt upphaf, fyrir breytingar til hins betra… Á morgun!

Þrenna vikunnar: Letin, bílskúrinn og teygjubindið
Þrenna vikunnar: Letin, bílskúrinn og teygjubindið 150 150 Freyr

Letin mun sigra!

Hatrið mun sigra var sungið. Mín öfugmæli í sama anda eru: „Letin mun sigra“. Nýsköpun nærist á „leti“. Leit að léttari leiðum. Þögn færir hugmyndir. Góður svefn gefur grunn. Íhugun hugarró. Leggðu þig í vinnunni. Horfðu út í loftið í næði. Taktu göngutúr. Vittu til, snilld fæðist!

Mér sýnist raunar að því ofar sem við komumst í goggunarröð viðskiptalífsins, því mikilvægari virðist „letin“ verða. Sjáið Warren Buffet. Les bækur, spilar bridds og spjallar við vini árið um kring. Tekur eina ákvörðun og „sigrar heiminn“. Já, „letin“ mun sigra!

Bílskúr mínímalistans

Ég öfunda þau sem eiga alltaf snyrtilegan bílskúr eða geymslu. Hef heyrt því fleygt að þau færustu hafi einfalda reglu. Fyrir hvern hlut sem fer inn, þá fari a.m.k. einn hlutur út. Sama ku vera sniðugt í fleira samhengi. Hvað með ábyrgðarhlutverk? Bolta á lofti, verkefni …? Er einfaldara líf mögulega betra líf? Hvað losarðu þig við í vikunni?

Teygjubindið og kærleikurinn

Ég missteig mig í vikunni. Það var sárt. Svíður enn. Þurfti samt ekkert teygjubindi á ökklann. Fyrir barðinu á mér varð saklaus íþróttaþjálfari sem sjálfur missteig sig, aðra æfinguna í röð. Í stað þess að bjóða honum upp á „teygjubindið“ sem hann þurfti, yfirveguðu kærleiksríku leiðbeininguna (þessa sem fyrirmyndar Freyr fjallar um í fyrirlestrum 😇), þá snar fauk í mig. Horfði illilega á piltinn og lét hann heyra það. „Þú verður að sýna standard“, hreytti ég í drenginn.

Rann reiðin. Áttaði mig. Ég hefði ekki sagt það sama ef það hefði verið ökklinn sem klikkaði. Ég hefði ekki sagt það sama ef kærleikurinn hefði komið fyrst. Það er víst hollt að læra af reynslunni. Sárt en hollt!

Fólkið og fjártæknin
Fólkið og fjártæknin 150 150 Freyr

Nýlega gekk ég í Fjártækniklasann. Tæknilega var það ekki ég, heldur 4702080230, en hver man ólógískar talnarunur? Tölvurnar hjá Skattinum eru flinkar við það, manneskjur tengja heldur við félagið mitt, Stöku ehf, en meira að segja viðskiptavinir mínir pæla fæstir mikið í félaginu, þau tengja við mig persónulega og er alveg sama um kennitöluna sem sendir reikningana og gefur tölvunum hjá Skattinum girnilegar tölur til að kjamsa á.

Kjarninn í klasanum góða snýst í mínum huga einmitt um þetta, þetta persónulega og mannlega sem við skiljum og þurfum. Ég er í honum vegna tækifæranna til að hitta allt flotta fólkið í klasa-fyrirtækjunum öllum, en fyrst og fremst er ég í honum vegna Fjártækni-dúettsins sjálfs, Gulla og Þórdísar, sem skilja svo vel þessa þörf fyrir fólk að tengjast og mikilvægi þess. Þau skilja að fólk í stöndugum bönkum þarf samtal við spennandi sprota, ráðgjafar við rafmyntagúrú o.s.frv. Þau Gulli og Þórdís hafa lag á að skipuleggja margvíslegar samkomur, okkar tíma réttir, vitandi að það er lítið gaman í réttum ef þar er aðeins fé, en ekki fólk!

Í þessu sama kristallast kjarninn í árangri fyrirtækjanna í Fjártækniklasanum og nútíma tækniþróun yfirhöfuð. Þó unnið sé með tölur og tækni á bakvið tjöldin, þá snýst hún fyrst og fremst um fólk. Að skilja takmarkanir mannskepnunnar og laga sig að henni, að gera flókna hluti einfalda, spara notendum sekúndur hér og hvar, auka þægindi, gegnsæi, sjálfvirkni, yfirsýn. Að ná jafnvel að gera hóflega spennandi og flókna hluti heillandi og öllum aðgengilega. Þá gildir vel slagorðið þekkta, allir vinna!


Sjá nánar um Fjártækniklasann á https://www.fjartaekniklasinn.is

Þrenna vikunnar: Nýsköpun, frá og með öðrum, Ómar Ragnarsson og afköstin
Þrenna vikunnar: Nýsköpun, frá og með öðrum, Ómar Ragnarsson og afköstin 150 150 Freyr

1 – Góðar hugmyndir koma frá öðrum
Í bók sinni, „Where good ideas come from“, segir Steve Johnson í löngu máli frá því hvaðan góðar hugmyndir koma. Ég get sparað þér langan lestur. Bókin segir: Góðar hugmyndir koma frá öðrum! Allt frá litlum nýjungum til helstu uppgötvanir sögunnar.
Í aðeins lengra máli: Nýsköpun blómstrar í samvinnu þar sem tækifæri til óvæntra tenginga eru til staðar. Magnaðar uppgötvanir spretta oft af litlum hugboðum og hugmyndum sem þroskast og þróast yfir í aðrar yfir langan tíma. Eða upp á enskuna: „Chance favors the connected minds.“
Ps. Ekki láta þig samt dreyma um að drifkrafturinn til að tengja og fylgja á eftir góða hugboðinu komi frá öðrum! Þitt er að láta kné fylgja kviði!


2 – Vatnskælar, hraðlar og klasar virka!
Í miðri COVID krísu er erfitt að mæla með hönnun sem hvetur til náinna samskipta, ég geri það samt. Samskipti geta verið góð og gefandi þó tveir metrar séu á milli:

  • Ef þú vilt að fyrirtækið* þitt fóstri nýsköpun, hannaðu þá rýmið til óvæntra samskipta. Vatnskælar virka, ekki bara til að slökkva þorsta!
  • Ef þú vilt að fyrirtækið þitt fóstri nýsköpun, skipuleggðu þá „hakkaþon“, nýsköpunardaga, „ship it“ daga. Ör samskipti og gerjun gefa!
  • Ef þú vilt að fyrirtækið þitt fóstri nýsköpun, styddu þá við leik og lærdóm með öðrum. Þing geta þeytt hausum í gang. Rétt útfært samstarf fyritækja, t.d. klasasamstarf innan geira, getur gert tvo + tvo að einhverju miklu meira en fjórum!

*fyrirtæki = Fyrirtæki, stofnun, opinber aðili, í háskólanum nefnt einu orði skipulagsheild.


3 – Akstursráð Ómars og aukin afköst á skrifstofunni
Ég hugsa oft til Ómars Ragnarssonar við akstur. Ómar segir t.d. að þreyttur bílstjóri ætti ekki að berjast á móti þreytunni heldur taka „ör-blund“. Ég vil meina að það sama gildi við krefjandi skapandi vinnu. Eru nýjar hugmyndir hættar að koma? Ör-blundurinn endurnærir alla hugsun! Ekki er ör-æfingin verri! Prófaðu 4ra mínútna tabata** skrifstofu-æfingu og nýju hugmyndirnar hrúgast inn á eftir!


**4mín tabata = Æfing að eigin vali í 20 sekúndur, 10 sek hvíld, endurtekið 8 sinnum, alls 4 mínútur

Þrenna vikunnar: Gaman saman, breytt hegðun og póst pot
Þrenna vikunnar: Gaman saman, breytt hegðun og póst pot 150 150 Freyr

1 – Hugmyndir þroskast best með öðrum

Ertu með hugmynd sem gæti orðið að vöru, bók, fyrirlestri, fyrirtæki? Frábært! Ekki þegja um hana, segðu frá, ræddu við aðra. Líkurnar á að einhver steli hugmyndinni eru hverfandi. En að fá viðbrögð og rýni eykur til muna líkurnar á að hugmyndin verði að einhverju! Gleymum ekki að nýsköpun byggir meira á úthaldi og endalausum betrumbótum, samtali, heldur en stakri hugdettu sem færir okkur Nóbelinn á núll einni.

2 – Breytt hegðun með því að tengja við „trigger“

Kófið hefur kennt okkur margt. T.d. að við getum breytt hvernig við bregðumst við ýmsum hlutum. Hvernig við t.d. opnum hurðir, þvoum hendur eða heilsum fólki. Á þessu má byggja. Við getum tengt kveikju (e. trigger) sem við rekumst á við okkar eigin hegðun. Þrjú uppáhalds dæmi, gömul og ný:

  • Þú lendir á rauðu ljósi og tengir það við nýja hegðun: Andar djúpt, brosir breitt og ferð með einhvern peppandi frasa í hvert sinn.
  • Lok (vinnu)dags: Haft miða tilbúinn og fyllt út áður en þú lýkur deginum með því mikilvægasta sem þú ættir að gera næsta dag. Max þrír punktar!
  • Ertu með morgun rútínu sem er alltaf eins? Prófaðu að bæta einu nýju sem þig hefur lengi langað að byrja að gera aftanvið í eina viku eða tvær. Mátt síðan endilega segja mér hvernig gekk ef þú prófar? (ps. Þessi póstur minn, þ.e. að skrifa, er mitt talandi dæmi um nýja hegðun í enda morgunrútínu 😉 )

3 – Örráð vikunnar: Póst-pot virkar

Oft á vel við hið fornkveðna: Less is more“. Fékkstu ekki svar við langa flotta út pælda póstinum þínum? Hættu að ímynda þér allskonar ástæður fyrir þrúgandi þögninni“, prófaðu frekar örstutt póst-pot sem býður upp á snar-svar: Daginn! Sástu þetta að neðan? Ertu til?“