rútína

Þrenna vikunnar: Þá fyrst – Samsíða – Allt í kerfi
Þrenna vikunnar: Þá fyrst – Samsíða – Allt í kerfi 150 150 Freyr

Þá fyrst

Þá fyrst þegar ég veit hvað viðsemjandinn vill, betur en hún sjálf, þá fyrst þegar ég skil hana og hennar ástæður betur en mínar eigin, þá fyrst er kominn tími til að bjóða fram annað en áhuga, fróðleiksfýsn og spurningar. Þá fyrst.

Samsíða

Er til betri leið til að vera (eða verða) sammála en að ganga hlið við hlið? Í orðsins fyllstu? Öxl í öxl, þar sem línur liggja í sömu átt?

Allt í kerfi

Hjá mér fer allt í kerfi, ef ekki er allt í kerfi. Meira að segja það að hreyfa mig að lágmarki 5 mínútur á dag er í kerfi. Ég sem elska hreyfingu og geri allt fyrir hana, þarf þennan ramma. Það síðasta sem ég geri í minni einföldu átta þrepa morgunrútínu er að hreyfa mig í 5 mínútur eða meira. Hvorki flókið eða mekkanískt „kerfi“, en virkar vel fyrir mig. Kosturinn við þetta eins og önnur kerfi er að það er létt að mæla, brilljant að breyta smátt og smátt og bæta við.

Þrenna vikunnar: Aðalríkur allsgáði og tveir með
Þrenna vikunnar: Aðalríkur allsgáði og tveir með 150 150 Freyr

1-Aðalríkur allsgáði, Phelps og þú

Já, það er COVID, já það er möguleiki á verðbólguskoti, eldgosi, jarðskjálfta og umtalsverðar líkur á að himnarnir hrynji ofaná okkur, eins og Aðalríkur allsgáði benti reglulega á í Gaulverjabænum um árið. Hvað með það? Hvert setur þú athyglina og orkuna? Hver er þín leið til að hugsa meira um þín tækifæri, frekar en ógnanir? Hvernig neglir þú daginn eða vikuna?

Í þessu samhengi verður mér sérstaklega hugsað til Michael Phelps, besta sundmanns sögunnar, sem fylgdi nákvæmlega sömu rútínu fyrir hverja einustu keppni. Allt til að gera sitt sund sem best! Phelps útilokaði alla truflun, fækkaði óvissuþáttunum, fylgdi sínu ferli frá morgni til sunds, með ótrúlegum árangri! En þú? Hvernig tryggir þú þinn árangur? Að dagurinn í dag verði góður? Morgundagurinn enn betri? Hugsar meira um hvernig þú eflir þinn innri eld en möguleikann á eldi úr iðrum jarðar, eða aðrar ógnir heimsins?

2-Mjór er mikils vísir

Hvenær þarftu að skila? Vera klár með þitt? Eftir mánuð? Tvo, meira? Hvernig væri að snara 20 mínútum í verkið núna? Einni stuttri lotu? Hvað segja ekki máltækin góðu, mjór getur verið mikils vísir og hálfnað verk þá hafið er! Brjóttu ísinn og komdu kvörnunum í gang! Þú þakkar þér seinna!

3-Umsögnin

Það er fínt að auglýsa. Láta vita af þér og þínu. En ekki gleyma að auglýsing keppir aldrei við jákvæða umsögn eða ábendingu. Vinir treysta vinum. Er mögulega eitthvað sem þú getur gert í dag sem getur gert umsögn morgundagsins betri?

Þrenna vikunnar: Tannbursta trixið, símamörkin og framtíðin bjarta
Þrenna vikunnar: Tannbursta trixið, símamörkin og framtíðin bjarta 150 150 Freyr

1 – Tannbursta trixið
Hefurðu komið inn í nýtísku fjós? Séð kýrnar „plataðar“ inn í básinn með mélkögglum? Þannig halda þær sinni rútínu, fara sinn hring í gegnum daginn. Við erum ekki mikið flóknari, a.m.k. ekki ég! Mánuðum saman hef ég reynt að festa inn mína eftirfarandi einföldu þriggja spurninga kvöld-rútínu með misjöfnum árangri:
1. Er ég örugglega búinn að gera allt sem ég varð að gera í dag? 2. Hvernig lítur morgundagurinn út? Aðalatriðið? 3. Er æfing morgundagsins undirbúin?
Nema hvað, eftir alla mína innri baráttu hef ég loks fundið ráðið! Blað bíður mín innan á tannbursta-skápnum. Ég leyfi mér að haka við þegar kvöld-rútínan er afgreidd, ekki fyrr! Á básnum sem ég heimsæki á hverju kvöldi. Nú held ég glaður mínum hring í gegnum daginn, muuuu betri maður en áður!

2 – Símamörkin
Ferðu í jarðaför með kveikt á farsíma og öllum hringingum og tilkynningum? Leikhús? Atvinnuviðtal?  Einkastund með uppáhaldinu? Sölufund? Vinnufund með samstarfsmönnum? Mikilvæga vinnulotu með sjálfum þér? Í sumarfríið? Yfir allan daginn í vinnunni? Að spila með börnum, vinum? Heima utan vinnu?
Hvar dregur þú mörkin? Af hverju? Bókar þú tíma án síma? Ekki láta truflunina vera tilviljun! Þitt er valið!

3 – Bjarta framtíð
Mannskepnan er án efa færust af skepnum jarðar í að ímynda sér framtíðina. Þessi geta leggur grunninn að margvíslegum efasemdum, kvíða og jafnvel hræðslu við að taka af skarið. Hræðslu við að gera nýja hluti, koma á nýjum venjum, breyta rútínum. Sem er mögulega það sem við ættum að hræðast mest! Að taka ekki af skarið, bíða einn dag enn með að byggja upp nýjar venjur og rútínur, leggja á ný mið, undirbúa okkar björtu framtíð!

Vanaliðið
Vanaliðið 150 150 Freyr

Í liðinni viku gaf ég „ríkisráðið”: Hálftíma hreyfing á dag, alla ævi! Stuttur pistill, orðagrín um hálftíma æfingu á dag, heilsunnar vegna. Ég get staðfest að pistillinn naut fádæma óvinsælda. Til þess að bíta höfuðið af skömminni fylgir nú annar pistill um sama efni, þessi meira að segja stuðar. Aðeins allra hörðustu lesendur munu halda út til enda, þar sem rúsínan bíður í pistilsendanum.

Ráðið sem ég þóttist hafa fundið er ekkert nýtt. Embætti landlæknis hefur gefið út bækling um hálftíma daglega hreyfingu, starfsmenn embættisins hafa kallað hreyfinguna lífselexír í pistli. Þó þetta séu ekki ný vísindi þá hefur ýmislegt nýtt komið fram síðustu ár, eins og varðandi áhrif hreyfingar á heilastarfsemi, mikil jákvæð áhrif æfinga á eldra fólk, svo eitthvað sé nefnt. Af hverju hreyfa sig þá ekki allir rösklega hálftíma á dag, frá vöggu til grafar? Hressandi hreyfing er eina geðlyfið án aukaverkana, eina afkastahvetjandi lyfið sem gerir þér bara gott, þyngdarstjórnunartæki sem styrkir andann um leið.

Eins og svo margt annað gott og slæmt snýst hreyfingin, eða skortur á henni, líklega mest um langanir okkar og vana. Margvísleg fíkn og vondar venjur viðhaldast vegna þess að við viljum forðast óþægindi. Af hverju ætti nokkur manneskja sem hefur fyrir augum sér endalausa uppsprettu hamingju á skjá að slökkva og fara út að hreyfa sig? Það er jafnvel óþægilegt, við forðumst óþægindi. Því óþægilegra sem ástandið er verra.

Það er engin skyndilausn. Við þurfum að breyta venjum. Að breyta venjum er erfitt. Að breyta venjum tekur langan tíma og krefst úthalds okkar sjálfra, jafnvel stuðnings, nær og fjær. Að breyta venju skilar ekki árangri fyrr en eftir langa mæðu og það er sérstaklega erfitt í umhverfi og samfélagi sem setur ekki langtíma-hugsun eða árangur á oddinn. Stiklum á stóru…

Íþróttahreyfingin er drifin áfram af fólki, eins og mér, sem þyrstir í árangur, stolt heimilisins, liðsins, sveitarfélagsins, landsins. Fólki með getu og áhuga á afrekum er sannarlega sinnt og það í langtíma uppbyggingu, en beint og óbeint er þeim sem ekki ná árangri vísað frá, að minnsta kosti ekki alltaf sinnt jafn vel og öðrum. 

Stærstur hluti heilbrigðiskerfisins er í viðbragðsham, kerfið er klárt til að greina sjúkdóma, lækna með aðgerðum og lyfjum. Kerfið bíður eftir því að fólk með vanda, m.a. eftir vondar venjur, banki á dyrnar, reiðubúið að selja því lausn við vandanum, skyndilausn. Græða ekki allir á því?

Svo alhæft sé áfram og nú um skólakerfið, þá virðist skipulag hreyfingar í kerfinu ekki snúast um að nýta ábatann af hreyfingunni (bætt námsgeta, einbeiting, líðan o.s.frv.) heldur að uppfylla staðla, námskrá, útfrá misskildum hagsmunum akademíkeranna.

Hverjir eru þá í dag í venjubreytingar-liðinu? Eigum við að nefna það Vanaliðið? Liðið sem hjálpar ungmennum sem gamalmennum upp úr stól og sófa, hreyfir við hreyfingarvenjum í fyrirtækjum og stofnunum? Liðið sem bendir á að fimm mínútur á dag séu góð byrjun, í fimmtíu daga, venjunnar vegna. Liðið sem býður vini út að ganga eða hlaupa, bendir á hvernig bæta má venju við venju og gera að góðum vana.

Við munum byltinguna varðandi lýðheilsu með reykingalöggjöfinni. Ég gæti trúað að við sem þjóð hefðum gagn af slíku átaki varðandi hreyfingu, blöndu af snjallri löggjöf og hvötum, þó eflaust muni einhverjir mótmæla slíku (eins og dæmin sanna). En við þurfum enga löggjöf til að byrja og megum ekki við því, við getum byrjað strax í dag, saman. Stofnum Vanaliðið, grasrótarhreyfing um góðar venjur. Venjur eins og fimm mínútna hreyfingu á dag í fimmtíu daga? Ganga eða hjóla til vinnu, þó ekki væri nema síðasta kílómetra leiðarinnar? Ein lítil venja sem má gera að vana, byggja á. Smám saman getum við bætt við mínútum, öðrum venjum og því mikilvægasta, fengið fleira fólki með í að byggja upp góðar hreyfivenjur, einn dag í einu. Ertu með?

Það er ekki víst að þetta klikki
Það er ekki víst að þetta klikki 150 150 Freyr

Ég hef ekki hugmynd um hvaða heit þú hefur strengt nú við upphaf nýs skólaárs. Ein vill út með kjöt, önnur inn með grænmeti, þriðji út með nikótín, fjórði auka hreyfingu? Það sem ég hef góða hugmynd um er að líkurnar á að þú standir við stóru orðin til langs tíma eru ekki miklar. Tölfræðin segir 10-20 prósenta líkur á tveggja ára úthaldi1. Það er sem sagt ekkert víst að þetta klikki hjá þér en líkurnar eru yfirgnæfandi!

Þó það sé klikkun hve oft við klikkum, þá er hitt hálfu verra, að reyna ekki. Þeir sem engu heita eru nefnilega enn ólíklegri til þess að breyta venjum og bæta sig. Rannsakendur segja að þeir sem stíga á stokk séu 10 sinnum líklegri til að bæta sig, en þeir sem geri það ekki2.

Önnur jákvæð tölfræði. Ef þú velur einn og aðeins einn dag, segjum upphaf skólaárs, 1. sept, eða 1. jan og þú klikkar. Ekki láta hug fallast, tölfræðin lýgur ekki, það eru enn 364 góðir dagar eftir til að strengja heit… og einum fleiri á næsta ári! Við erum að tala um að 99,7% daga ársins bíði þín! Þitt er að velja góðan dag, sem þú tengir við.

Segðu sem flestum frá

Það er þá gott eftir allt saman að strengja heit og ótal tækifæri til þess. Hvað fleira þarf til? Að segja frá er líklega eitt það mikilvægasta. Þessi pistill er talandi dæmi. Ef ekki væri fyrir þig væri ég löngu búinn að kasta inn hvíta handklæðinu. Ég væri búinn að taka undir allar heimsins afsakanir og hættur að skrifa. Ég steig á stokk og hét pistli hvern miðvikudag. Þú heldur mér við efnið. Takk! Ég mæli með því sama. Segðu sem flestum frá því hvað nákvæmlega þú ætlar þér að afreka, svo vinirnir geti fylgst með þér og hvatt þig til dáða.

Allt fyrir auknar líkur á árangri

Áður en þú stígur á stokk má gera ýmislegt til að auka líkur á árangri. Ágætt er að spyrja sig: Hvað eru miklar líkur á að ég haldi út? Hvað gæti mögulega orðið til þess að ég klikki? Ef þú getur ekki sagt með vissu að það séu yfir 90% líkur á að þú haldir út árið, þá þarftu að rýna betur í málin! Hvað ef þú tekur helmingi minna skref, fjórðungi? Eru þá meiri líkur á að þú standir við stóru orðin? Hvað þarf í alvöru til? Getur þú hannað umhverfi og áminningar þannig að það séu 100% líkur á að þú haldir út? Af hverju ekki að gera það þannig?

Reglulegt og afmarkað

Ef þú vilt að að heitið endist árið, þá er regla málið. Föst dagleg regla án nokkurra undantekninga er mun líklegri til að halda en óregluleg vænt bæting. Ef þú ert eitthvað í ætt við mig, þá er af nógu af taka til að bæta. Freistandi er að sníða af alla vankanta á einu bretti. Vonlaust dæmi. Dagleg rútína með einn afmarkaðan hlut er öllu líklegri til árangurs. Eitt og aðeins eitt. Seinna, þegar dagurinn er réttur má bæta við öðru atriði í safnið, en þá bara einu. Eitt pínulítið skref, með pínulítið atriði er svo miklu betra en ekki neitt.

Er þá eftir nokkru að bíða? Síðasti miðvikudagur í ágúst, er það ekki bara fínn dagur? Stígðu á stokk og stattu nú við stóru orðin. Það er ekkert víst að þetta klikki!


Neðanmáls

Það er rétt að taka fram að við sköpun þessa pistils sköðuðust hvorki dýr né plöntur og kolefnisspor til fyrirmyndar. Hins vegar urðu til ný máltæki.

  • Regla er algjör negla.
  • Seigla skilar sigri.
  • Litlu trixin lukkast oft best.

Tilvísanir og frekari lestur

  1. Rannsókn Scranton háskóla samantekt hér, fann út að 19% héldu heit sín enn eftir tvö ár.
  2. Ég vísa í aðra samantekt Scranton háskóla hér sem kannaði hvernig gekk með bót og betrun. Af þeim sem strengdu heit voru 46% á beinni braut, en 4% af þeim sem engin heit strengdu.
  3. Daniel H. Pink sagði: ,,Byrjum rétt, byrjum oft og byrjum með öðrum!“ í bókinni When, sem ég hef áður vísað til. samantekt Samuel Davis hér.
Að hrasa er að vera til
Að hrasa er að vera til 150 150 Freyr

Helgin var góð. Gekk í blíðu meðfram Laxárgljúfri í Hreppum. Hrikalegt og fallegt. Af mér hrundu áhyggjur og svitaperlur. Elskaði landið og félagsskapinn. Hrasaði, tognaði og blótaði. Stóð upp, náði takti, hélt áfram.

Liðinn mánuðurinn var góður. Hjólaði fram og aftur um borgina. Vann að verkefnum með snörpu og góðu fólki. Vann með eigin venjur. Gekk vel. Skrapp vestur. Hrasaði, missti taktinn, hikaði, efaðist. Náði takti, hélt áfram.

Árið hefur verið gott. Hef fengið að fara um heiminn. Hef bæði staðið einn á tindum og kafað í mannhafið. Hef glaðst með börnum. Pirrað mig á börnum. Hét því að bæta mig, hrasaði, missti kúlið. Tapaði viku, náði takti, hélt áfram.

Lífið hefur verið gott. Margs er að minnast, margs er að sakna, fyrir ótal margt að þakka. Meira að segja einmitt þetta, að fá að hrasa svo oft og svo víða. Að hrasa er að vera til. Þurfa að haltra og hika, að finna til. Bölva í hljóði en standa upp aftur. Draga andann og draga lærdóm. Ná aftur takti, jafnvel nýjum takti. Halda áfram reynslunni ríkari, sterkari, ákveðnari, jafnvel betri.


Tilvísanir

Stutt skref að stórum sigrum
Stutt skref að stórum sigrum 150 150 Freyr

Miðvikudagurinn 5. júní 2019 getur orðið mikill tímamótadagur fyrir okkur, mig og þig. Þetta er fyrsti miðvikudagurinn í júní. Tilvalinn dagur fyrir okkur til að bæta okkur smá.

Ég er heillaður af þessu magnaða fyrirbæri venjum. Hvort sem það er góð venja eða vond, siður eða ósiður þá finnst mér fyrirbærið í meira lagi áhugavert.

Stór hluti þess sem við gerum yfir daginn er ósjálfráð venja. Kemur þetta líklega til af því að með ósjálfráðum venjum getur heilinn sparað orku. Við rennum í gegnum hinar ýmsu venjur, því sem næst á sjálfsstýringu. Morgunrútínan, leiðin til vinnu, kvöldrútínan o.s.frv.

Ég á sjálfur mjög gott safn af vondum venjum sem ég rúlla í gegnum reglulega. Dæmi eru döpur umgengni og án efa vafasöm hegðun á köflum. Annað safn á ég myndarlegt, það er safn af brostnum vonum og venjum. Góður ásetningur, aumt úthald. Ég þarf vart að minna lesendur mína á ,,þriðjudagspistlana“, ef ég man rétt urðu þeir tveir, síðan frestaði ég að birta pistil fram á miðvikudag eina vikuna, það var nóg, venjan dó!

Við þessu er ekki endilega töfralausn. Fátt er auðveldara en að fara út af braut bættra venja. Ég hef þó af reynslu og lestri góðra bóka sannfærst um að litlar bætingar, stutt skref, séu mun líklegri leið til árangurs en stór skref. Stuttur pistill er til dæmis mun betri en langur, vilji maður koma á rútínu miðvikudagspistla. En lykilatriði til að halda sér brautinni beinu er að sætta sig aldrei við nema eitt misstig. Að sleppa rútínunni í annað sinn getur þýtt endalok (takk James Clear).

Ég leyfi mér því að velta upp spurningunni, hve lítið telur þú þig geta bætt þig í dag? Ef þú vilt til dæmis koma þér úr engu í ágætt göngu- eða hlaupaform, þá gæti verið ágætis áskorun fyrir þig að taka fram skóna og reima þá á þig… ekki meira! Á morgun gætirðu síðan prófað að ganga í skónum 100 skref. Með daglegri lágmarks bætingu endarðu á tindinum háa.

Gangi þér vel að bæta þig í dag, eins lítið og þú getur 😉

—–

Eftirtöldum þakka ég innilega fyrir innblásturinn:

  • Andra bróður mínum og Steina Móses Hightower bróður hans með þessum snilldar texta, Stutt skref
  • Leo Babauta venju- og pistlasmiður Zenhabits.
  • Minn uppáhalds pistlahöfundur og nú bókarútgefandi, James Clear, sjá hér.
  • Vinum og lesendum sem hafa hvatt mig til að koma mér aftur í skrif-rútínu