skilvirkni

Þrenna vikunnar: Skilvirknin, gjöfin og skánin
Þrenna vikunnar: Skilvirknin, gjöfin og skánin 150 150 Freyr

Skilvirknin

Enn hefur ekki verið fundið betra ráð til aukinnar skilvirkni en að sleppa því að gera það sem minna eða jafnvel engu máli skiptir þegar upp er staðið.

Gjöfin

Hefðurðu gefið nóg í vikunni? Brosað að fyrra bragði, óháð því að fá bros til baka? Hrósað af heilindum án þess að vænta svars? Gefið, viðtakandans vegna? Sýnt kærleika í verki, án þess að ætlast til nokkurs til baka?

Skánin

Stundum sakna ég sveitavinnunnar. Að geta séð svart á hvítu hvar ég stend, hvað er búið, hvað er eftir. Líkt og að stinga skán út úr fjárhúsum. Þar sem hver stunga færir okkur nær endamarkinu. Þar sem króin er eins og súlurit væri henni lyft upp á endann. Best með öðrum, sárir lófar, sviti og þreyta. Sameiginlegt markmið. Sigur unninn með flugi síðustu skánarflögunnar út um dyrnar.

Eða hvað? Kannski er það ekki taðið sem er toppurinn eftir allt saman? Heldur vel heppnuð samvinna með góðu fólki? Vinna að sameiginlegu markmiði? Sjónrænt yfirlit? Augljós framgangur?

Þrenna vikunnar: Einn, þrír og fimm
Þrenna vikunnar: Einn, þrír og fimm 150 150 Freyr

1 – Eitt í einu

Tætingur er aldrei svarið. Vinna í einu, því allra mikilvægasta, kýla á það, klára, kveðja, bless! Það er enginn sigurvegari í keppninni „tættasti starfsmaður vikunnar“, svo mikið er víst. Er hægt að bunka upp verkefnum? Taka lotur?

3 – Þegar þrennt er allt en eitt er ekkert

Ertu að kynna möguleika fyrir einhverjum? Stilla upp tilboði? Geturðu bætt tveimur möguleikum við? Boðið upp á þrjá kosti? Með því gætirðu breytt pælingum viðkomandi úr hvort hún vill vinna með þér, yfir í hvernig!

5 – Fimm á dag

Manstu eftir fimm á dag? Ráðlagður dagskammtur af grænmeti og ávöxtum. Steinliggur! Hollt og gott! En hvernig getum við komið á venju sem þessari? Ég er með fimm hugmyndir:

 1. Komdu þér upp blaði með 5 reitum fyrir hvern dag, hakaðu við fyrir hverja gúrku og gulrót.
 2. Vertu með app í símanum, t.d. „Five a Day“ appið og merktu við hvern skammt.
 3. Finndu til þinn dagskammt í ílát að morgni, hafðu á áberandi stað og tryggðu að þú hafir tæmt að kvöldi.
 4. Finndu fimm atriði yfir daginn til að tengja við og fáðu þér einn ávöxt eða grænmeti við hvern. T.d. einn við fyrstu máltíð dagsins, annan áður en ferð út úr dyrum, þriðja eftir að kemur heim… etc.
 5. Settu fimm netta steina í vinstri vasann að morgni, færðu einn yfir í hægri vasann fyrir hvern „bita“ og vertu viss um að vinstri vasinn sé tómur fyrir svefninn! Ps. það er ókostur að þekkja ekki muninn á hægri og vinstri ef beita á þessa aðferð 😅

Skiptu síðan út grænmeti og ávöxtum í ofangreindu fyrir hvaða jákvæðu breytingu sem þú vilt koma á í þínu lífi, innan eða utan vinnu. Steinliggur, ekki satt?

Gengið í takt
Gengið í takt 150 150 Freyr

,,…vinstri hægri, einn, tveir, einn, tveir, vinstri, hægri… staðar nem, einn, tveir!“

Sögusviðið er Gunnarshólmi í Austur-Landeyjum. Við, yngri deildin, tæplega tuttugu krakkar úr þremur yngstu bekkjum skólans, gengum hring eftir hring í litla salnum. Inni í hringnum lagði línurnar Albert á Skíðbakka, bóndinn af næsta bæ sem gaf sér tíma milli mjalta til þess að kenna okkur púkunum eina af mikilvægustu lexíum lífsins, að ganga í takt. Eftir takti Alberts örkuðum við, tókum tilsögn, réttum úr okkur, reyndum að forðast að stíga (kína)skóna af næsta manni. Eftir ótal hringi byrjaði parketið loks að dúa í takt, bóndinn brosti: ,,…vinstri, hægri, staðar nem, einn tveir!“. Upphitun lokið og glíman tók við.

Í dag fæ ég stundum að standa inni í hringnum og hjálpa til við að koma rétta taktinum á, en nú er það eldri deildin. Það heitir ekki lengur vinstri, hægri eða gönguæfing. Í dag heita æfingarnar útlendum nöfnum eins og Scrum og Kanban, takturinn er sleginn með daglegum standandi fundum, reglulegum sýningum og rýni á vinnubrögðin þar sem gefst færi á að laga taktinn, því lítið gengur ef skórinn er stiginn af næsta manni í öðru hverju skrefi.

En þvílík sæla þegar ,,parketið“ fer að dúa í takt, þegar hópurinn greikkar sporið, ánægja og afköst aukast. Þá hugsa ég með þakklæti til lexíunnar austur í Landeyjum, sé fyrir mér gamla bóndann Albert, teinréttan og glaðbeittan, leggja grunninn að lífsins glímu. „…áfram gakk, einn, tveir!“

Að fasta, eða ekki fasta
Að fasta, eða ekki fasta 150 150 Freyr

Ég hef tröllatrú á föstum. Ég er sannfærður um ágæti þess að gera tilraunir á sjálfum sér, setja sér mörk, finna freistingarnar naga, detta stundum af baki, en brölta aftur á truntuna, þó heilinn gangi laus.

Í allsnægtalandinu sem við lifum í, þar sem framboð matar, upplýsinga og truflunar er taumlaust, getur ágætis mótvægi falist í tímabundnum föstum. Nokkur dæmi, til að gefa þér hugmyndir:

 • Sextán – átta: Að sleppa mat milli klukkan átta að kvöldi til tólf á hádegi morguninn eftir.
 • Nammidagur: Einn dagur í viku fyrir valdar freistingar.
 • Hádegis og kvöldráp: Að neyta aðeins miðla (s.s. samfélags- og fjölmiðla), ef tími vinnst til, milli 12 og 13 og/eða eftir klukkan 20:00 að kvöldi, annars ekki.
 • Fréttir af afspurn: Að sleppa öllum miðlum (samfélags- og fjölmiðlum), en spyrja heldur samferðafólk frétta.
 • Skila fyrst, skoða svo: Að skoða ekkert sem truflar hugann fyrr en allra allra mikilvægasta verkefni dagsins hefur verið unnið.
 • Þriggja tíma póstfasta: Að skoða aðeins tölvupóst eftir þriggja tíma vinnu-lotu í senn, með stuðningi niðurteljara.
 • Skapa, ekki gapa: Að skapa s.s. semja, smíða, sauma, forrita, hanna… en sleppa því að gapa yfir öðrum (t.d. á samfélagsmiðlum) í miðri viku.

Möguleikarnir til að setja sér mörk eru ótæmandi, rétt eins og tækifærin til þess að láta trufla sig. Það má setja áminningar og læsingar í síma og tölvu. Það má nota öpp til að hjálpa sér að halda sér á braut, nú eða gamaldags aðferð eins og að setja teygju utanum símann. Teygjan minnir þig þá á ,,símaföstuna“.

Færð þú góða hugmynd að föstu upp í hugann við lesturinn? Láttu hana eftir þér! Hlakka til að heyra hvernig gengur. T.d. með tölvupósti, eða með athugasemd. Ekki samt móðgast ef ég svara ekki strax, ég gæti verið að fasta.

———-

Takk fyrir innblásturinn:

ps. viltu fá pistil í áskrift? Þá getur þú skráð þig hér.

Þögnin, næðið og tilgangurinn
Þögnin, næðið og tilgangurinn 150 150 Freyr

Ráðgjöf er fallegt íslenskt orð. Að gefa ráð. Þó erum við ráðgjafar ekki endilega þekktastir fyrir gjafmildi okkar þegar kemur að ráðum, heldur mögulega frekar lipurð okkar í að skrifa reikninga fyrir ráðleggingarnar. En mig langar sannarlega að standa undir nafni og gefa þér mín allra bestu ráð.

Mig langar að stinga saman nokkrum stefjum sem ég nota til að temja sjálfan mig, enginn endanlegur sannleikur, heldur aðferð sem ég beiti og líður vel með. Þessi pistill er upphafið að pistlaröð sem ég veit ekki enn hvernig endar en ég kalla nú: ,,Besta(ða) útgáfan af sjálfum þér.“

Þögnin, næðið og tilgangurinn

Valgeir Guðjónsson spurði í texta sínum, mögulega meira í gríni en alvöru: ,,Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? […] Hver er ég? Hvar endar alheimurinn? Skyldi’ […] hann enda inni í mér?“ Hver sem hugsun Valgeirs var þykir mér fá stef meira viðeigandi sem upphafsstef.

Hefur þú raunverulega tekið þér stund í næði til að velta fyrir þér kjarna þínum og tilgangi? Hverju þú vilt ná fram? Þar til þinn tilgangur er ljós er ég í sömu stöðu og ráðgjafi Lísu í Undralandi, kötturinn, áður en Lísa vissi hvert hún væri að fara. Áður en ljóst er hvert þú stefnir þá skiptir minna máli í hvaða átt þínir fætur feta.

Þögnin eða næðið sem þú þarft til að hugsa um þinn tilgang, hoppar ekki upp í fang þitt óumbeðið. Hvort sem þú finnur þína stund í kyrrð snemma morguns, á hjóli, fjallstindi eða á bekk í fjölmenni þá eru miklar líkur á að þú þurfir að hafa fyrir því. Það er nefnilega miklu léttara að fljóta með straumnum og taka við áreitinu, fylgja öðrum. Það kostar orku og áræði að taka um stýrið, taka ábyrgð, útiloka áreitið og líta sér nær, leiða sjálfan sig og aðra.

Mín leið er að bóka tíma með sjálfum mér. Ég á bókað stefnumót með sjálfum mér einu sinni í mánuði. Snemma morguns meðan aðrir sofa fer ég yfir minn tilgang í næði.

Í upphafi velti ég fyrir mér hlutunum án nokkurs texta. Síðar fann ég mér blað og skrifaði nokkrar línur. Nú er blaðið fullt. Þetta gæti ég kallað stefnumótunarskjal fyrir sjálfan mig. Ég les yfir skjalið og ítra mánaðarlega, breyti því og reyni að bæta, tek nýtt mið. Ég leik mér að því horfa á sjálfan mig og heiminn með augum fugls sem flýgur. Stundum hendi ég inn spurningum eins og, hvað ef ég get allt? Hvað ef það eru engar takmarkanir? Hvað þá? Eða hvernig get ég tryggt að ég skipti engu máli? Fjarlægt sjálfan mig út úr jöfnunni, hvað þá?

Aðferðirnar til að finna sig og sinn tilgang eru óteljandi margar, hvaða nálgun þú velur er aukaatriði. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að þú takir með vilja þessa ábyrgð á sjálfum sér. Með þessari reglulegu hugarleikfimi tel ég mig nú þokkalega undirbúinn ef ég skyldi rekast á köttinn á förnum vegi.

Af neyslu og lyst
Af neyslu og lyst 150 150 Freyr

Konan mín hefur ráð undir rifi hverju. Hún hefur fundið út að besta lyst á grænmeti hafa börnin rétt fyrir kvöldmatinn. Þegar lágt er orðið á tanknum fá þau grænmetisskál meðan þau horfa á barnatímann. Vittu til, skálin tæmist á augabragði. Grænmetið er góður forréttur og lystin á kvöldmatnum er góð. Við vitum hvað gerist ef börnin komast í sælgæti fyrir mat. Þau kvarta ekki, eru sæl og glöð en það sem þau fá í kroppinn eru næringarlausar hitaeiningar og það sem verra er, matarlystin er lítil sem engin þegar kemur að matartímanum.

Þetta minnir mig á lyst mína á skapandi og krefjandi verkefnum.

Ef ég vil hámarka afköst mín og árangur við skrif, eins og þennan pistil, þá geri ég það ,,fastandi“, fyrst að morgni áður en ég hleypi nokkru öðru að. Ég tryggi að slökkt sé á öllum tilkynningum í síma og tölvu. Ég hef aðeins opinn einfaldan ritil, þar sem ég sé ekki neitt annað en textann. Ég vil ekki hafa ,,sælgætisskál“ opna fyrir framan mig sem freistar mín. Að kroppa í ,,sætmeti“, eins og fréttir eða samfélagsmiðla í miðri krefjandi vinnulotu veit ég að slær mig út af laginu og ,,sköpunarlystin“ minnkar, jafnvel löngu eftir, ein rannsókn sýnir að áhrifa truflunar gætir í meira en 20 mínútur eftir að menn verða fyrir henni.

Að gera marga hluti í einu eða samhliða („múltítaska“) er það allra versta. Það minnkar ekki aðeins afköst og getu mína í augnablikinu heldur getur það minnkað andlega getu mína til langframa (sbr. rannsókn).

Ert þú nokkuð að gera sem skemmir þína sköpunar- eða lærdómslyst?