stjórnun

Þrenna vikunnar: Rétta glerið í kófinu, sjálfræði og afskiptaleysi, um annir og árangur
Þrenna vikunnar: Rétta glerið í kófinu, sjálfræði og afskiptaleysi, um annir og árangur 150 150 Freyr

Rétta glerið í kófinu

Í „kófinu“ reynir á stjórnendur sem aldrei fyrr. Fæstir hafa stýrt sínu liði í fjarvinnu. Hér kemur fram það sem allflestum stjórnendum er ljóst en öðrum ekki, að starfsmenn vilja yfirhöfuð allir skila góðu starfi og ná árangri í sínu. Þeir þurfa ekkert smásjáreftirlit, eða handstýringu í gegnum daginn. En… það breytir því ekki að stjórnandinn verður áfram að hafa yfirsýn, hún verður að sjá stóru myndina, hafa á hreinu mælikvarðana sem segja henni hvort teymið er á réttri leið. Þá er nú gleiðlinsan betri, en smásjáin!

Þunna línan milli hvetjandi sjálfræðis og afskiptaleysis

Í ræðu og riti hef ég talað fyrir sjálfræði starfsmanna sem lykli að ánægju og afköstum í hugrænni vinnu. Hef ég í þessu samhengi bent á pælingar Daniel H. Pink um þrennuna mikilvægu, sjálfræði, fagþekkingu og tilgang (e. autonomy, mastery and purpose). Þessa þrennu hafa margir stjórnendur í huga og nýta með góðum árangri í sinni stjórnun. Í sjálfræðinu er samt falinn varasamur pyttur. Línan frá hvetjandi sjálfræði yfir í afskiptaleysi er þunn.

Það kemur fyrir að þrátt fyrir sjálfræði, gríðar spennandi og tilgangsrík verkefni á fagsviði starfsmanns, þá kviknar enginn eldmóður. Hitt er jafnvel algengara, „stjörnuleikmaðurinn“ byrjar vel, en síðan dofnar yfir honum. Hver sem ástæðan er fyrir því að starfsmaður „spilar undir getu“, þá verður stjórnandinn að stíga inn. Þjálfari horfir ekki upp á leikmann eiga sinn versta dag á vellinum lengi áður en hann skiptir honum útaf. Með því að horfa aðgerðalaus á starfsmann missa flugið er stjórnandinn að gera bæði sjálfum sér og starfsmanninum ógagn. Uppbyggileg, krefjandi gagnrýni og leiðbeining er nefnilega enn lykilþáttur í góðri stjórnun, hvað sem sjálfræðinu líður!

ps. fyrir áhugasama um málefnið mæli ég með bókinni Radical Candor eftir Kim Scott.

Annir og árangur

Það er fátt auðveldara í henni veröld en að vera upptekinn. Verkefnalistar og tölvupóstar geta t.d. verið „góð“ uppspretta endalausra anna og þannig fest okkur á okkar eigin heimatilbúna hamstrahjóli. Við gleðjumst yfir afgreiddu verki eða pósti til þess eins að sjá listann lengjast á ný, án þess að við komumst í stóru málin. Þá er nú betra að brúka dagatalið með. Að ramma inn fyrirfram hve miklum tíma við verjum „á hamstrahjólinu“ á móti tíma í stefnumótun, fólk og ferla eða hvað það er sem eru mikilvægu stóru málin sem hrópa ekki svo hátt á okkur í núinu en öllu skipta fyrir framtíðina.

Gætum okkar, það er nefnilega svo ósköp auðvelt að rugla saman önnum og árangri!

Þrenna vikunnar: Um stjórnun á bringusundi, spliffaðar pælingar og óttalausan október
Þrenna vikunnar: Um stjórnun á bringusundi, spliffaðar pælingar og óttalausan október 150 150 Freyr

1 – Góður stjórnandi syndir alltaf bringusund!

Góður stjórnandi syndir ekki skriðsund, með höfuðið hálft ofaní vatni og rótast áfram. Nei, góður stjórnandi syndir bringusund, með gamla laginu! Höfuð upp úr vatni, ýtir með stórum handartökum áskorunum, áhyggjum og vandamálum kröftuglega frá, alltaf með yfirsýn, sér alltaf til lands!

ps. Innleggið í þessum örpistli heyrði ég í gær haft eftir reynslumiklum Rangæingi, stjórnanda úr byggingageiranum, sem svaraði svo, poll rólegur, þegar einhver hafði áhyggjur af því að hann, með alla þessa ábyrgð í risavöxnu verki, væri svo yfirvegaður.

2 – Spliffuð mælingar pæling

Nú er vika í nýjan ársfjórðung. Þú setur vonandi á blað háleit markmið fyrir þig og þitt teymi/fyrirtæki/stofnun. Markmiðið mjög líklega útkomu, eða niðurstöðumarkmið. Segjum t.d. að selja sjöhundruð pakka af spliffi, donki og gengjum. Framganginn getur þú auðveldlega mælt í sölutölum mánaðar. Það er fínt. En hvað er það sem ræður mestu um hve marga pakka þú selur? Gefur besta vísbendingu um árangur ársfjórðungins? Er það fjöldi kynninga í verslunum eða fjöldi samtala við landshlutafélög spliffara? Fjöldi matarboða með helstu donk og gengju gengjunum?

Þá er spurning um þennan ársfjórðung sem lúrir hinumegin við helgina. Viltu setja smá púður í pælingar um „vísbendingarmarmið“, frekar en útkomu? Mæla vikulega? Pældu allavegana í því!

3 – Óttalaus október

Ef það er eitthvað sem við getum gengið að sem vísu í komandi mánuði þá er það efinn. Við munum efast um eigin ágæti, fá fiðring í maga, hika, sleppum því að stíga skrefið. Eða hvað? Hvað ef við snúum nú á efann? Höldum óttalausan október? Um leið og kitlið kemur, kýlum á það djarfar en okkur grunaði að væri hægt? Stökkvum upp þrjú þrep, en ekki eitt? Skrifum í blöðin en ekki á miða? Biðjum um fund með okkar flottustu fyrirmynd frekar en muldra í barminn? Látum kitlið þýða, nú kýli ég á það!? Fyrir efann í orðabók október standi, ég er frábær! Já ég þori get og vil!

Valið virkar og virkjar
Valið virkar og virkjar 150 150 Freyr

Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil. Sit einn í stól fyrir framan skjáinn, klukkan rétt rúmlega sex á miðvikudagsmorgni. Enginn bað mig að skrifa, enginn rak mig á fætur en hér sit ég samt, einn morguninn enn. Með vilja og þokkalegri vitund. Valið er mitt, venjan er mín.

Væri ég jafn viljugur ef ég hefði fengið verkefninu úthlutað frá yfirmanni? „Freyr, nú er komið að þér að skrifa pistla. Skrifaðu nú eitthvað skemmtilegt strákur! Ég held þú eigir lausa stund milli 6 og 9 á miðvikudagsmorgnum. Settu þetta síðan bara í loftið um leið og þú ert búinn að skrifa, þú þarft engan yfirlestur er það? Ekki klikka strákur, alls ekki klikka! Já og launin, ekki hafa áhyggjur af þeim. Þú hefur nú bara gaman að þessu, er það ekki? Góð kynning og svona… þú gerir þetta bara fyrir okkur, yfirmennina á fimmtu hæðinni, ekki satt?“ Hvað heldur þú?

Þetta er ein af áskorunum nútímans í stjórnun, uppeldi og öðrum samskiptum. Hvernig virkjum við fólk með vali? Valið virkar og virkjar, hvort sem við erum börn eða fullorðinn. Eða hefur þú upplifað muninn á því að leyfa ákveðna barninu þínu að velja sér vettlinga eða húfu, eða ákveða fyrir það og skipa. Það hefur a.m.k. ekki alltaf endað vel á þessu heimili.

Húsið er á hvolfi og komið að unglingunum að þrífa. Þá er ekki til öflugra verkfæri en valið. „Hvort ykkar ætlar að skipta niður verkefnalistanum? Óli? Jæja gott, Bergey þú færð þá að velja hvorn hlutann þú tekur“. Ég játa að það fylgja kannski ekki nein húrrahróp, en vittu til viljinn er margfaldur á við að ná því sama fram með fortölum, skipunum, blóti og ragni, já við höfum samanburðinn. 🙂

Þetta eru ofurlítil einföld dæmi um einfalt fyrirbæri, sem þó er svo öflugt. Stundum leynist lausnin í stjórnun (og uppeldi) í frelsinu, valinu. Skipaðu mér fyrir og ég streitist á móti. Gefðu mér val og þinn vilji verður minn vilji!


Tilvísanir:

Frelsið – Ný dönsk

Stjórnun sem sjálfboðastarf, brjálæði eða besti skóli?
Stjórnun sem sjálfboðastarf, brjálæði eða besti skóli? 150 150 Freyr

Ég vildi að ég gæti sagt þér að leið mín í gegnum lífið hafi öll verið útpæld og plönuð. Það kæmi líklega betur út fyrir stjórnendaráðgjafann en svo er einfaldega ekki. Flestar mínar stærri ákvarðanir hef ég tekið í stundarbrjálæði, án þess að rýna náið í hvað á eftir kæmi.

Í upphafi árs 2009 tók ég eina slíka ákvörðun. Frjálsíþróttadeildin í hverfinu mínu, frjálsíþróttadeild Ármanns, mátti á þeim tíma muna sinn fífil fegurri. Mér var ekki sama og sá þarna gríðar stóra og mikla áskorun. Á þessum tíma rétt eftir hrun var ég í leit að tilgangi, frekar en verkefnum. Ég var önnum hlaðinn við að stýra stórum alþjóðlegum hugbúnaðarverkefnum en of oft hafði ég séð hugbúnaðinn enda á hillu og rykfalla þar eftir allt erfiðið. Í stundarbrjálæði í þessari hrunvímu ákvað ég sem sagt að safna liði og leggja mitt að mörkum til að byggja upp íþróttastarf í hverfinu. Án þess að átta mig fyllilega á því festi ég mig með þessu sem stjórnandi í sjálfboðastarfi.

Stundirnar sem fóru í þetta verkefni voru ótal margar og oft krefjandi, mun fleiri en mig gat órað fyrir. En þó finnst mér núna að þetta verkefni hafi gefið mér margfalt meira en ég hef lagt að mörkum. Í félagsstarfinu gefast einstök tækifæri til að þróa sig og þroska. Að kafa í mannhafið, kynnast fólki, læra inn á eðli þess og áhuga. Það er góður skóli og kennir meira en nokkur bók eða fyrirlestur.

Í mínu verkefni hef ég lært gríðar mikið um verkefnastjórnun, viðburðastjórnun, sölu og markaðsstarf, samstarf við fjölmiðla, lært um skipulag íþróttahreyfingarinnar, borgar og stjórnmála svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef byggt upp tengsl við gríðar margt einstaklega gott fólk sem ég mun lifa á það sem eftir er og er endalaust þakklátur fyrir. Þetta tengslanet hefur nýst mér vel núna á fyrstu mánuðum mínum í að byggja upp mitt ráðgjafarfyrirtæki.

Nú eru rúm sjö ár liðin. Fyrir um tveimur vikum hætti ég sem formaður frjálsíþróttadeildar Ármanns og tek við nýju sjálfboðastarfi hjá FRÍ. Á þessum tímamótum lít ég til baka. Nú get ég miðlað af reynslu og sagt án þess að hika, ef þú sérð áskorun sem krefst mikils af þér, tækifæri til að taka að þér krefjandi verkefni í sjálfboðastarfi, láttu vaða! Ekki bara fyrir félagsskapinn eða verkefnið, heldur líka þín vegna! Þú færð það margfalt til baka.