sveitastörf

Þrenna vikunnar: Skilvirknin, gjöfin og skánin
Þrenna vikunnar: Skilvirknin, gjöfin og skánin 150 150 Freyr

Skilvirknin

Enn hefur ekki verið fundið betra ráð til aukinnar skilvirkni en að sleppa því að gera það sem minna eða jafnvel engu máli skiptir þegar upp er staðið.

Gjöfin

Hefðurðu gefið nóg í vikunni? Brosað að fyrra bragði, óháð því að fá bros til baka? Hrósað af heilindum án þess að vænta svars? Gefið, viðtakandans vegna? Sýnt kærleika í verki, án þess að ætlast til nokkurs til baka?

Skánin

Stundum sakna ég sveitavinnunnar. Að geta séð svart á hvítu hvar ég stend, hvað er búið, hvað er eftir. Líkt og að stinga skán út úr fjárhúsum. Þar sem hver stunga færir okkur nær endamarkinu. Þar sem króin er eins og súlurit væri henni lyft upp á endann. Best með öðrum, sárir lófar, sviti og þreyta. Sameiginlegt markmið. Sigur unninn með flugi síðustu skánarflögunnar út um dyrnar.

Eða hvað? Kannski er það ekki taðið sem er toppurinn eftir allt saman? Heldur vel heppnuð samvinna með góðu fólki? Vinna að sameiginlegu markmiði? Sjónrænt yfirlit? Augljós framgangur?

Tætt í gegnum daginn
Tætt í gegnum daginn 150 150 Freyr

Í landbúnaði lærði ég fyrst að vinna. Ungur tók ég hvers kyns vélavinnu fegins hendi, eins og að tæta upp tún. Á Zetor dólaði ég áfram í lága drifinu. Árangurinn náðist með einfaldri aðferð. Að byrja snemma, stoppa aldrei, láta ekkert trufla sig og hætta ekki fyrr en síðasti blettur var tættur. Ekki einu sinni kall náttúrunnar fékk að trufla, með handolíugjöfina fasta hélt ég í stýrið með annarri og vökvaði flagið með besta vininum með hinni. Einfalt líf á beinni braut.

Við vélavinnu sem þessa er maður strammaður af og í einum ham. Svo lengi sem svefninn er nægur til að sofna ekki undir stýri er maður í einföldustu vélavinnu í nokkuð góðum málum.

Nú er öldin önnur. Í borginni er ekki nein bein braut fyrir mig að aka eftir. Í frelsinu á skrifstofunni þarf ég að finna brautina sjálfur, hemja mig og temja.

Uppskriftin mín er svipuð og í sveitinni. Ef ég á krefjandi verkefni fyrir höndum þá virkar best að mæta snemma, vera vel sofinn, tryggja að ekkert geti truflað, slökkva á öllum tilkynningum í síma og tölvu, gera öllum ljóst að nú sé ég í ham¹.

Rétt er að taka fram að ekki eru allir morgunfuglar. Sumir eru nátthrafnar og skrifa og skapa best að kvöldi. En sama gildir hvort er morgunn eða kvöld, verkefnavings (e. multitasking) er vonlaus aðferð við krefjandi og skapandi vinnu, já líka fyrir ykkur konur!2

Við tætingar á túnum í sveitinni gat maður haldið áfram meðan enn var olía á tanknum og afköstin voru mest undir vélinni komin. Í borginni er það andinn okkar sem ræður afköstum. Andinn afkastar best í ,,fókuseruðum“ lotum og sprettum, ekki á langtíma lulli í lága drifinu. Við erum betri ef við tökum alvöru pásu. Vatnskælirinn eða kaffivélin eru þekkt fyrir að gefa góðan innblástur. Sannreynt er að skjálausar pásur, á hreyfingu, helst utandyra, með öðrum, gefa andanum besta fóðrið3.

Þegar líða fer á daginn og lækka á tankinum hjá okkur morgunfuglum er fínn tími til að koma sér í léttari verk. Þá er fínt að afgreiða tölvupósta eða fyrirspurnir, helst í lotu, hringja símtölin sem þarf að hringja, eða gera hvað annað sem krefst ekki of mikils andlegs styrks.

Að loknum degi getum við vonandi litið sátt yfir afköstin á ,,akrinum“. Þá búin að tæta í gegnum verkefni dagsins, vonandi ekki of tætt samt… og getum haldið heim á ný, fyllt aftur á tankinn, tilbúin í nýjar áskoranir á nýjum degi. Heldurðu að þú komist í ham í dag?


Pistillinn er tileinkaður pabba, sem hefði orðið 67 ára í dag. Hann kenndi mér að vinna. Með góðu fordæmi, nærveru og samveru sem ég sakna í dag sem aðra daga.


  1. Víða í ráðgjafarvinnu minni segir mér fólk sem vinnur í stórum opnum rýmum að vinnustaðurinn á vinnutíma sé ekki góður til að vinna. Pælið í því! Stór opin vinnurými eru ekki uppskrift að starfsánægju eða árangri, punktur! Já það má kaupa höfuðtól, mæta fyrr, vinna heima… en væri ekki betra að hanna vinnurýmið þannig að það henti til að ná afköstum og árangri? Líklega efni í sér pistil, en læt þennan punkt duga í bili.
  2. Rannsóknir sýna að karlar og konur eru jafn afleit í að ,,gera tvennt í einu“. Sjá t.d. pistil um málið hér.
  3. Daniel H. Pink fer vel yfir pásur til afkasta í öðrum kafla bókarinnar When. Sjá samantekt Samuel T. Davis hér.
Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?!
Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?! 150 150 Freyr

Ég var landbúnaðarverkamaður í Landeyjum. Ekki ráðinn, heldur sonur foreldra minna, bænda í Hildisey. Ég var samt tiltölulega langt frá því að vera endilega fæddur í starfið eins og sagt er. Mamma vildi meina að ég væri færastur í því að færa mig undan. Fá Örvar litla bróður til þess að vinna verkið. Hann þurfti ekki að biðja tvisvar. ,,Sko! Sjáðu bara Örvar”.

Í mínum huga glymja enn ,,hvatningarorð” eins og: ,,Freyr!!! Hver heldurðu að vilji nokkurn tíma ráða þig í vinnu?!”

Ég sagði ekki neitt. Blótaði nokkrum sinnum í hljóði. Hætti að skipuleggja í huganum næstu íþróttaæfingu. Hélt áfram að skafa fjósbitana. Verkið var rétt utan við mitt kjarna áhugasvið, það augnablikið, skulum við segja.

Þökk sé Andra yngri bróður okkar, þá er mamma sennilega búin að gleyma þessu. Andri var nefnilega verri! Mamma hætti fljótlega að reyna að fá hann til verka. Andri var ónytjungur.

Mér flaug þetta í hug aftur í vetur. Ég sat í Háskólabíói. Salurinn var troðfullur. Kastararnir lýstu upp sviðið. Laglínan lipur. Textarnir tær snilld. Útsetningarnar þvílíkt afbragð. Í miðjum hópnum stóð Andri og spilaði og söng. Stóri bróðir varð stoltur og meyr.

Andri hafði fundið fjölina sína.

Í dag er Andri nákvæmur, frumlegur, skapandi, harðduglegur tónlistarmaður sem unnir sér sjaldan hvíldar. Gerir það sem hann langar til þess að gera.

Í dag eru tækifæri um allt. Möguleikarnir og leiðirnar óteljandi. Þú getur gert það sem þig langar til þess að gera. Meira en það. Ef þú vilt ná árangri þá skiptir öllu máli að þú finnir hvað það er. Að þú finnir ástríðueldinn og hellir svo olíu á.

Þá verður slegist um að ráða þig í vinnu. Eða, þú býrð þér til þína drauma vinnu. Ræður til þín fólk. Þá skiptir máli að ráða rétt. Hugaðu þá að ónytjungunum! Þeir leynast víða!

—–
Fyrst birt á blandan.net 10.5.2013