tilgangur

Þrenna vikunnar: Heillaskrefin, valið um valið og annað magnað
Þrenna vikunnar: Heillaskrefin, valið um valið og annað magnað 150 150 Freyr

1-Heillaskref

Nú árið er liðið, jólin brennd í burtu í gær. Þar með fuðraði upp síðasta afsökunin fyrir að halda áfram „sukkinu“. Góð stund til að gera litlar breytingar til hins betra. Koma á kerfi sem virkar, fjarlægja freistingar, fjölga hvetjandi áminningum. Það er lítill vandi að stíga í hægri fótinn, á eftir þeim vinstri á göngu… Hvert verður þitt næsta heillaskref? Með vinstri eða hægri?

2-Val um val

Í hvað við viljum eyða orku okkar og tíma? Hverju getum við verið án? Sagt er að „ákvarðanavöðvinn“ þreytist. Ef þú sinnir vandasömu starfi, með ótal ákvörðunum, er betra að „vöðvinn“ sé klár þegar þörf krefur. Þá gæti verið klókt að einfalda aðra þætti lífins. Sagt er þetta sé ástæðan fyrir því að þeir Mark Zuckerberg og Steve Jobs hafi nær alltaf klæðst eins fötum, dag eftir dag. Minni orka í fataval, meiri orka aflögu í alvöru „business“! 

Hver er þinn aðal „business“?

3-Magnað

Það er magnað hve lítinn aga þarf, ef skipulagið er gott.

Það er magnað hve margar hugmyndir koma í pásu, uppbroti, á göngu, eftir erfiða lotu.

Það er magnað hve létt er að finna drifkraftinn ef tilgangurinn er ljós.

Græjum skipulagið, pössum upp á pásurnar, munum tilganginn og eitthvað magnað mun gerast! 

Magnað ár framundan, ekki satt?

Þögnin, næðið og tilgangurinn
Þögnin, næðið og tilgangurinn 150 150 Freyr

Ráðgjöf er fallegt íslenskt orð. Að gefa ráð. Þó erum við ráðgjafar ekki endilega þekktastir fyrir gjafmildi okkar þegar kemur að ráðum, heldur mögulega frekar lipurð okkar í að skrifa reikninga fyrir ráðleggingarnar. En mig langar sannarlega að standa undir nafni og gefa þér mín allra bestu ráð.

Mig langar að stinga saman nokkrum stefjum sem ég nota til að temja sjálfan mig, enginn endanlegur sannleikur, heldur aðferð sem ég beiti og líður vel með. Þessi pistill er upphafið að pistlaröð sem ég veit ekki enn hvernig endar en ég kalla nú: ,,Besta(ða) útgáfan af sjálfum þér.“

Þögnin, næðið og tilgangurinn

Valgeir Guðjónsson spurði í texta sínum, mögulega meira í gríni en alvöru: ,,Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? […] Hver er ég? Hvar endar alheimurinn? Skyldi’ […] hann enda inni í mér?“ Hver sem hugsun Valgeirs var þykir mér fá stef meira viðeigandi sem upphafsstef.

Hefur þú raunverulega tekið þér stund í næði til að velta fyrir þér kjarna þínum og tilgangi? Hverju þú vilt ná fram? Þar til þinn tilgangur er ljós er ég í sömu stöðu og ráðgjafi Lísu í Undralandi, kötturinn, áður en Lísa vissi hvert hún væri að fara. Áður en ljóst er hvert þú stefnir þá skiptir minna máli í hvaða átt þínir fætur feta.

Þögnin eða næðið sem þú þarft til að hugsa um þinn tilgang, hoppar ekki upp í fang þitt óumbeðið. Hvort sem þú finnur þína stund í kyrrð snemma morguns, á hjóli, fjallstindi eða á bekk í fjölmenni þá eru miklar líkur á að þú þurfir að hafa fyrir því. Það er nefnilega miklu léttara að fljóta með straumnum og taka við áreitinu, fylgja öðrum. Það kostar orku og áræði að taka um stýrið, taka ábyrgð, útiloka áreitið og líta sér nær, leiða sjálfan sig og aðra.

Mín leið er að bóka tíma með sjálfum mér. Ég á bókað stefnumót með sjálfum mér einu sinni í mánuði. Snemma morguns meðan aðrir sofa fer ég yfir minn tilgang í næði.

Í upphafi velti ég fyrir mér hlutunum án nokkurs texta. Síðar fann ég mér blað og skrifaði nokkrar línur. Nú er blaðið fullt. Þetta gæti ég kallað stefnumótunarskjal fyrir sjálfan mig. Ég les yfir skjalið og ítra mánaðarlega, breyti því og reyni að bæta, tek nýtt mið. Ég leik mér að því horfa á sjálfan mig og heiminn með augum fugls sem flýgur. Stundum hendi ég inn spurningum eins og, hvað ef ég get allt? Hvað ef það eru engar takmarkanir? Hvað þá? Eða hvernig get ég tryggt að ég skipti engu máli? Fjarlægt sjálfan mig út úr jöfnunni, hvað þá?

Aðferðirnar til að finna sig og sinn tilgang eru óteljandi margar, hvaða nálgun þú velur er aukaatriði. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að þú takir með vilja þessa ábyrgð á sjálfum sér. Með þessari reglulegu hugarleikfimi tel ég mig nú þokkalega undirbúinn ef ég skyldi rekast á köttinn á förnum vegi.