tölvupóstur

Þrenna vikunnar: Hamingjudagar, framúrskarandi og blessaður tölvupósts blundurinn
Þrenna vikunnar: Hamingjudagar, framúrskarandi og blessaður tölvupósts blundurinn 150 150 Freyr

Hamingjudagar

Sem unglingur gekk ég með þá grillu í höfði að þriðjudagar væru óhappadagar. Líkt og ég væri keyrður í skólann á Hvolsvelli til þess eins að eitthvað kæmi uppá. Ég hlustaði náið eftir hnjóðsyrðum í minn garð, óheppni og almennum leiðindum. Því nánar sem ég hlustaði, því betur hélt reglan. Þriðjudagar voru þolraun, en þó aðeins jafn lengi og ég trúði á „regluna“. Sagði ekki Guðni Gunnarsson, „allt sem þú veitir athygli vex og dafnar“. Líklega að hluta skylt því sem sálfræðingar kalla staðfestingarskekkju (e. confirmation bias).

Þökk sé þessari reynslu vinn ég nú með hamingju- og heppnisdaga, alla daga! …og þvílíkt sem lánið leikur við mig, alla daga!

Framúskarandi

Skyldu margir skara framúr vegna vissunnar um að vera fremstir allra í flokki? Eða hægir mögulega mest á farmförunum við vissuna um að engra bætinga sé þörf til að skara framúr?

Blessaður tölvupósts-blundurinn

Margir segja að blundur sé bölvun, you snooze you lose. Ekki ég, ég blunda án samviskubits og mæli með, alla daga! Sérstaklega mæli ég með tölvupóst-blundum. Háklassa póst-hugbúnaður eins og Spark (fyrir makka), Frontapp (fyrir teymi), eða Boomerang viðbótin í Gmail bjóða upp á brilljant blundi. Með þessum tólum get ég sent póst og fengið áminningu ef ekkert svar hefur borist innan segjum 2ja daga. Þá get ég valið að pósturinn fari út þegar ég tel líkegasta til að hitta viðtakandann vel fyrir, t.d. eftir að viðkomandi er nývaknaður að morgni, eftir góðan blund, nú eða í næstu viku ef viðkomandi bað mig um að hafa samband þá. Pósturinn fær leyfi til að lúra í úthólfinu þangað til.

ps. Outlook er ekki alveg jafn lipurt, en þú getur samt blundað póstinn, sjá hér nú eða frestað útsendingu, sjá hér.

Þrenna vikunnar: Gaman saman, breytt hegðun og póst pot
Þrenna vikunnar: Gaman saman, breytt hegðun og póst pot 150 150 Freyr

1 – Hugmyndir þroskast best með öðrum

Ertu með hugmynd sem gæti orðið að vöru, bók, fyrirlestri, fyrirtæki? Frábært! Ekki þegja um hana, segðu frá, ræddu við aðra. Líkurnar á að einhver steli hugmyndinni eru hverfandi. En að fá viðbrögð og rýni eykur til muna líkurnar á að hugmyndin verði að einhverju! Gleymum ekki að nýsköpun byggir meira á úthaldi og endalausum betrumbótum, samtali, heldur en stakri hugdettu sem færir okkur Nóbelinn á núll einni.

2 – Breytt hegðun með því að tengja við „trigger“

Kófið hefur kennt okkur margt. T.d. að við getum breytt hvernig við bregðumst við ýmsum hlutum. Hvernig við t.d. opnum hurðir, þvoum hendur eða heilsum fólki. Á þessu má byggja. Við getum tengt kveikju (e. trigger) sem við rekumst á við okkar eigin hegðun. Þrjú uppáhalds dæmi, gömul og ný:

 • Þú lendir á rauðu ljósi og tengir það við nýja hegðun: Andar djúpt, brosir breitt og ferð með einhvern peppandi frasa í hvert sinn.
 • Lok (vinnu)dags: Haft miða tilbúinn og fyllt út áður en þú lýkur deginum með því mikilvægasta sem þú ættir að gera næsta dag. Max þrír punktar!
 • Ertu með morgun rútínu sem er alltaf eins? Prófaðu að bæta einu nýju sem þig hefur lengi langað að byrja að gera aftanvið í eina viku eða tvær. Mátt síðan endilega segja mér hvernig gekk ef þú prófar? (ps. Þessi póstur minn, þ.e. að skrifa, er mitt talandi dæmi um nýja hegðun í enda morgunrútínu 😉 )

3 – Örráð vikunnar: Póst-pot virkar

Oft á vel við hið fornkveðna: Less is more“. Fékkstu ekki svar við langa flotta út pælda póstinum þínum? Hættu að ímynda þér allskonar ástæður fyrir þrúgandi þögninni“, prófaðu frekar örstutt póst-pot sem býður upp á snar-svar: Daginn! Sástu þetta að neðan? Ertu til?“

Þrenna vikunnar: Tölvupóst-trix, Bubbi Morthens og goggunarröð samskipta
Þrenna vikunnar: Tölvupóst-trix, Bubbi Morthens og goggunarröð samskipta 150 150 Freyr

1 – Bubbi Morthens og þúsund þorskar
Ein besta leiðin til að afgreiða tölvupóst er að líta á tölvupóstflæðið eins og fisk á færibandi. Þú skimar ekkert yfir eða kroppar aðeins í þá þorska sem þér líst best á á bandinu og geymir aðra til betri tíma. Ó nei! Sama á við póstana. Þúsund póstar á færibandinu þarfnast afgreiðslu og verða að fá að þjóta áfram! Þá er mikilvægt að hafa reglu að fylgja þar sem hver og einn póstur er afgreiddur á ákveðinn hátt. Ég sjálfur afgreiði hvern póst á þrjá mismunandi vegu:

 • Lesinn (eða merktur lesinn) eða honum eytt.
 • Merktur til afgreiðslu síðar (stjarna/flagg).
 • Svarað/afgreitt strax.

Ekkert annað! Aldrei líta til baka, aldrei að hika, einn tölvupóst í einu! Söng ekki Bubbi einmitt um árið… Þúsund póstar á færibandinu þokast nær?!

2 – Tölvupóstur út á réttum tíma
Færðu stundum tölvupóst sem segir: „Hafðu endilega samband við mig í næstu viku/mánuði etc.“ Ef þú ert á annað borð í „tölvupóst-ham“ þá þýðir það bara eitt… þú skrifar póstinn strax og tímastillir hann þannig að hann sendist á viðeigandi tíma! Málið afgreitt. Láttum tölvurnar um það sem þær eru bestar í!

3 – Goggunarröð samskipta
Þarftu að sannfæra einhvern? Manna verkefni? Selja? Tölvupóstur er ágætur (sérstaklega ef hann er lesinn) en hann verður seint talinn áhrifaríkasti miðillinn í samskiptum! Mín topp 10 „goggunarröð“ samskipta er eftirfarandi:

 1. Hittast, einn á einn.
 2. Hittast, einn á einn.
 3. Hittast, einn á einn. Akkúrat… númer eitt tvö og þrjú eru persónuleg samskipti!
 4. Lifandi vídeó samtal.
 5. Lifandi hljóð samtal.
 6. Messenger, snap, eða annað spjall með hljóði og/eða mynd.
 7. Texta spjall, Messenger, Slack, SMS, etc.
 8. Senda persónulegan póst, skemmtilegan og grípandi, einn á einn.
 9. Senda póst, persónumiðan, en samt á fjölda í einu. (Lauma inn persónulegri tengingu í hvern póst)
 10. Senda almennan póst á póstlista með Mailchimp eða öðru góðu póstlista-tóli.

Þetta byggi ég á minni reynslu við mönnun íþróttamóta sem vinnu við ráðgjöf. Þín reynsla svipuð?