val

Að velja og hafna – Þjónn og herra – Upphaf og endir
Að velja og hafna – Þjónn og herra – Upphaf og endir 150 150 Freyr

Að velja og hafna

Til að ná stórum sigrum í framtíð getum við vart annað en neitað okkur um ýmislegt, stórt og smátt í núinu.

Kúnstin er að velja og hafna.

Til að ná stórum sigrum í framtíð verðum við að grípa tækifærin í núinu, stór og smá, stökkva af stað, án þess að hika.

Kúnstin er að velja og hafna.

Þjónn og herra

Dreymir þig um að stjórna meiru? Verða jafnvel „eigin herra“? Fer nett í taugarnar á þér þegar stjórinn pikkar í þig og þú getur ekki annað en stokkið til?

En hver er þinn kröfuharðasti „herra“ í dag? Liggur hann stundum í þínum eigin lófa?

Er fyrsta skrefið að því að verða „eigin herra“ mögulega að slökkva á öllum tilkynningum frá símanum? Tryggja þannig að hann kalli þig ekki til annarra „verka“ þegar síst skyldi? Að tryggja að síminn sé sannarlega þinn þjónn sem þú pikkar og potar í þegar þér hentar en ekki öfugt?

Upphaf og endir

Hví bölva svefnleysi að morgni þegar rótin liggur í venjum kvöldsins?

Hví bölva rótleysi dagsins að kvöldi þegar vandinn liggur í venjum morgunsins?

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Þrenna vikunnar: Heillaskrefin, valið um valið og annað magnað
Þrenna vikunnar: Heillaskrefin, valið um valið og annað magnað 150 150 Freyr

1-Heillaskref

Nú árið er liðið, jólin brennd í burtu í gær. Þar með fuðraði upp síðasta afsökunin fyrir að halda áfram „sukkinu“. Góð stund til að gera litlar breytingar til hins betra. Koma á kerfi sem virkar, fjarlægja freistingar, fjölga hvetjandi áminningum. Það er lítill vandi að stíga í hægri fótinn, á eftir þeim vinstri á göngu… Hvert verður þitt næsta heillaskref? Með vinstri eða hægri?

2-Val um val

Í hvað við viljum eyða orku okkar og tíma? Hverju getum við verið án? Sagt er að „ákvarðanavöðvinn“ þreytist. Ef þú sinnir vandasömu starfi, með ótal ákvörðunum, er betra að „vöðvinn“ sé klár þegar þörf krefur. Þá gæti verið klókt að einfalda aðra þætti lífins. Sagt er þetta sé ástæðan fyrir því að þeir Mark Zuckerberg og Steve Jobs hafi nær alltaf klæðst eins fötum, dag eftir dag. Minni orka í fataval, meiri orka aflögu í alvöru „business“! 

Hver er þinn aðal „business“?

3-Magnað

Það er magnað hve lítinn aga þarf, ef skipulagið er gott.

Það er magnað hve margar hugmyndir koma í pásu, uppbroti, á göngu, eftir erfiða lotu.

Það er magnað hve létt er að finna drifkraftinn ef tilgangurinn er ljós.

Græjum skipulagið, pössum upp á pásurnar, munum tilganginn og eitthvað magnað mun gerast! 

Magnað ár framundan, ekki satt?

Valið virkar og virkjar
Valið virkar og virkjar 150 150 Freyr

Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil. Sit einn í stól fyrir framan skjáinn, klukkan rétt rúmlega sex á miðvikudagsmorgni. Enginn bað mig að skrifa, enginn rak mig á fætur en hér sit ég samt, einn morguninn enn. Með vilja og þokkalegri vitund. Valið er mitt, venjan er mín.

Væri ég jafn viljugur ef ég hefði fengið verkefninu úthlutað frá yfirmanni? „Freyr, nú er komið að þér að skrifa pistla. Skrifaðu nú eitthvað skemmtilegt strákur! Ég held þú eigir lausa stund milli 6 og 9 á miðvikudagsmorgnum. Settu þetta síðan bara í loftið um leið og þú ert búinn að skrifa, þú þarft engan yfirlestur er það? Ekki klikka strákur, alls ekki klikka! Já og launin, ekki hafa áhyggjur af þeim. Þú hefur nú bara gaman að þessu, er það ekki? Góð kynning og svona… þú gerir þetta bara fyrir okkur, yfirmennina á fimmtu hæðinni, ekki satt?“ Hvað heldur þú?

Þetta er ein af áskorunum nútímans í stjórnun, uppeldi og öðrum samskiptum. Hvernig virkjum við fólk með vali? Valið virkar og virkjar, hvort sem við erum börn eða fullorðinn. Eða hefur þú upplifað muninn á því að leyfa ákveðna barninu þínu að velja sér vettlinga eða húfu, eða ákveða fyrir það og skipa. Það hefur a.m.k. ekki alltaf endað vel á þessu heimili.

Húsið er á hvolfi og komið að unglingunum að þrífa. Þá er ekki til öflugra verkfæri en valið. „Hvort ykkar ætlar að skipta niður verkefnalistanum? Óli? Jæja gott, Bergey þú færð þá að velja hvorn hlutann þú tekur“. Ég játa að það fylgja kannski ekki nein húrrahróp, en vittu til viljinn er margfaldur á við að ná því sama fram með fortölum, skipunum, blóti og ragni, já við höfum samanburðinn. 🙂

Þetta eru ofurlítil einföld dæmi um einfalt fyrirbæri, sem þó er svo öflugt. Stundum leynist lausnin í stjórnun (og uppeldi) í frelsinu, valinu. Skipaðu mér fyrir og ég streitist á móti. Gefðu mér val og þinn vilji verður minn vilji!


Tilvísanir:

Frelsið – Ný dönsk