Þrenna vikunnar: Af athygli og afskiptaleysi, vondum ferlum og ófullkomleika

Þrenna vikunnar: Af athygli og afskiptaleysi, vondum ferlum og ófullkomleika 150 150 Freyr

1-Hawthorne og afskiptu börnin

Bráðum er heil öld liðin frá því Hawthorne rannsóknirnar hófust. Þær sýndu svo ekki verður um villst að traustar og öruggar aðstæður og athygli eru grunn „næring“ starfsmanna. Að starfsmenn finni að þeirra framlag skipti máli, að eftir því sé tekið og þeim veitt athygli.

Fyrir rétt um þrjátíu árum, við fall járntjaldsins komu í ljós skelfilegar aðstæður á munaðarleysingjahælum í Rúmeníu. Þessi skelfing skapaði aðstæður til rannsókna sem sýndu að án snertingar, athygli og örvunar, þroskast börn ekki sem skyldi, líða fyrir alla tíð.

Ein grimmasta birtingarmynd eineltis er hunsun.

Með öðrum orðum, þín snerting og athygli getur skipt sköpum. Ef þú ert með starfsmenn í þínu liði, tékkaðu á þeim, af áhuga. Á hvaða leið eru þeir? Finnst þeim þeirra framlag skipta máli?

Áttu góðan vin sem skiptir þig máli? Veit hann það? Finnur hann að hans framlag skiptir máli?

Þitt framlag getur skipt sköpum.

2-Gott vont ferli

Nú ætla ég ekki að reyna að halda því fram sem algildum sannleik að vont sé gott, en þó mögulega í einu samhengi. Vont ferli getur t.d. verið miklu betra en ekkert ferli. Þú veist þó a.m.k. hvernig þú nálgast hlutina og getur unnið að því að gera þitt vonda ferli smám saman skömminni skárra.

Ég ætla að snara í einfalt dæmi. Við vitum öll að dagleg hreyfing gerir okkur gott. Jafnvel bara fimm mínútur á dag geta gert gæfumuninn. En samt dettum við út af sporinu. Þá spyr ég: Hvað er það einfaldasta ferli sem þú getur snarað upp í dag (t.d. strax að lestri loknum) til að halda þér á braut fimm mínútna daglegrar hreyfingar? Með viku- og eða mánaðarlegu uppgjöri á hvernig tókst til? Ferli sem þú gætir haldið út ævina? Jafnvel bara vont ferli sem þú gerir smám saman betra?

3-Ófullkomið

Ég hef nýtt haustið í að æfa mig að skrifa þér, æfingin skapar meistarann er sagt. Ó hvað ég á langt í land! Vegna þessa færðu á hverjum fimmtudagsmorgni frá mér ófullkominn póst. Póst sem gæti verið betri. Með þremur punktum sem hver og einn gæti verið betri.

Til þess að koma Þrennu vikunnar frá mér þarf ég því í dag sem aðra daga að rifja upp það sem John Lasseter, þá kvikmyndaleikstjóri hjá Pixar, sagði: „Við náum aldrei að fullgera myndirnar okkar, við frumsýnum þær.“

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: