Vilt þú ná árangri?

Vilt þú ná árangri? 150 150 Freyr

Einn minn kærasti mentor fyrr og síðar tók mig afsíðis. Við vorum stallbræður í þjálfun, ég að gutla við að æfa sjálfur, hann nærri höfðinu hærri, fjórtán árum eldri. Kappinn snéri sér að mér, horfði djúpt í augun á mér og spurði: „Hvernig er það með þig Freyr Ólafsson, vilt þú ná árangri?“ Ég umlaði og hummaði og reyndi um leið að sannfæra þennan þrekvaxna Ólympíufara að tuttugu og tveggja ára gamlan sveitastrák vantaði ekki viljann. „Hvenær ætlar þú bara að kýla á þetta og fara alla leið?“ spurði hann áfram af yfirvegun og þunga og sínum uppörfandi áhuga. Ég hrökk við, reyndi að halda kúlinu, en varð fátt um svör.

Vésteinn Hafsteinsson hefur fyrr og síðar spurt fjölda fólks svipaðra spurninga. Sumir hafa hrokkið í kút og hikað, eins og ég á þessum tíma. Aðrir hafa fundið svarið í eigin kjarna, „kýlt á þetta“ og farið alla leið, hafa sýnt og sannað að þeir vildu raunverulega ná árangri, jafnvel orðið bestir í heimi.

Ótal stjórnendur og þjálfarar hafi mikla tæknilega færni og þekkingu á sínu sviði og geta sagt fólki sínu til, það hjálpar, en er það aðal atriðið? Í mínum huga hafa yfirburða stjórnendur og þjálfarar, eins og Vésteinn, það lag sem þarf á því að komast inn í kjarnann og kveikja í fólki. Þeir spyrja krefjandi spurninga sem lifa með því og hvetja áfram. Hjálpa því að finna viljann og löngunina hjá sjálfum þér.

Krafturinn er þarna á sínum stað, inni í þér. Það er enginn annar en þú sem getur fundið viljann til að ná árangri. Þú þarft að þora að stíga skrefið og fylgja eigin sannfæringu. Þú þarft að hunsa allar þær ótal efasemdarraddir sem sífellt telja úr þér kjark, dusta púkunum af öxlunum og halda áfram. Góður yfirmaður og þjálfari styður þig, bendir á púkana. Hjálpar þér að trúa en efast ekki.

En hvernig er þetta annars með þig, viltu raunverulega ná árangri? Hvenær ætlar þú bara að kýla á þetta og fara alla leið?

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr
1 comment

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.